Margrét Björnsdóttir Blöndal fæddist á Siglufirði 6. janúar 1924. Hún andaðist 28. september á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi.

Foreldrar hennar voru Björn Jóhannesson, bóndi á Þverá í Hrolleifsdal, síðar verkamaður á Siglufirði, f. 23.6. 1888, d. 11.8. 1961, og Ólöf Jónsdóttir frá Stóru Brekku í Fljótum, f. 15.5. 1891, d. 15.10. 1980. Systir Margrétar var Guðbjörg María Björnsdóttir, f. 6.4. 1918, d. 26.11. 1997. Margrét giftist Óla J. Blöndal, f. 24.9. 1918, verslunarmanni og síðar bókaverði á Siglufirði, 23.9. 1944. Foreldrar hans voru Jósep Lárusson Blöndal frá Kornsá, símstjóri og kaupmaður á Siglufirði, og Guðrún Guðmundsdóttir frá Hóli í Lundarreykjardal. Börn Margrétar og Óla eru:1) Ólöf Birna, f. 11.11. 1942, maki Sveinn Þórarinsson, f. 23.7. 1940. Börn: a) Þórarinn, f. 26.6. 1967, maki Líney Sveinsdóttir, börn þeirra eru: Þórhildur, Sveinn og Haraldur. b) Óli Grétar Blöndal, f. 17.2. 1972, maki Anne Andrée Bois. Dóttir: Lilja Kristín. c) Sveinn Snorri, f. 28.10. 1973. d) Rósa Björk, f. 7.5. 1980, maki Jóhannes Haukur Jóhannesson. Börn: Ólöf Halla og óskírður sonur. 2) Jósep Örn, f. 24.6. 1947, maki Erla Harðardóttir, f. 22.7. 1954. Börn: a) Smári Tarfur, f. 17.9. 1976. b) Guðbjörg María, f. 28.8. 1982. Dóttir: Erla Vala. c)Sigurbjörg María, f. 6.10. 1989, sambýlismaður Kristján Fenrir Sigurðsson. Jósep var áður kvæntur Oddnýju Helgadóttur, f. 22.8. 1947, d. 23.8. 1996. Barn: Ída Margrét, f. 26.8. 1966. Síðar kvæntur Inger Jespersen, f. 1.2. 1946, d. 2001. Barn: Björn Ingimar, f. 14.3. 1971, maki Lilja Gunnarsdóttir. Synir: Gunnar og Baldur. 3) Ásbjörn, f. 25.11. 1954, maki Jóhanna Guðmundsdóttir, f. 6.7. 1960. Börn: a) Guðmundur Óli, f. 11.11. 1989, b) Bryndís, f. 26.4. 1992, c) Egill, f. 16.9. 1996. Börn Ásbjörns eru: a) Ásbjörn Þór, f. 1.11. 1971, maki Arna Björg Sævarsdóttir. Synir: Sigtýr Snorri, Styrbjörn Sævar, Steinkell Skorri. b) Berglind Soffía, f. 14.5. 1977, sambýlismaður Elías Hilmarsson. Sonur: Kristian Atli. Dætur Berglindar eru: Kristína May og Kamilla Mist. 4) Sigurður, f. 6.4. 1959, maki Linda Björk Guðmundsdóttir, f. 15.9. 1966. Börn: a) Theodór Sölvi, f. 25.9. 1991, b) Snorri Páll, f. 23.3. 1994. c) Elín Gná, f. 19.4. 2001. Sonur Sigurðar er: Sigurður Ari, f. 19.4. 1979, sambýliskona Íris Egilsdóttir. Börn: Alex Daði, Úlfur, Diljá. 5) Guðrún, f. 27.3. 1960, maki Friðrik Jón Arngrímsson, f. 1.3. 1959. Börn: a) Margrét Lára, f. 11.7. 1978, maki Pétur Geir Kristjánsson. Börn: Agla Sól, Friðrik Darri. b) Arngrímur Orri, f. 21.4. 1982. c) Óli Björn, f. 15.4. 1993. d) Sindri Már, f. 29.5. 1999. Margrét ólst upp í Hlíðarhúsi á Siglufirði. Hún lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Siglufirði og stundaði nám við Húsmæðraskólann í Reykjavík, lauk námi þar vorið 1944. Hún vann um tíma á Símstöðinni á Siglufirði, þar sem oft var annasamt í erli síldaráranna. Eftir að þau Óli gengu í hjónaband helgaði hún sig störfum fyrir fjölskylduna. Starfsvettvangur Óla var lengstum erilsamur og því hlutverk eiginkonunnar að móta umgjörð heimilisins, sem var sérlega hlýlegt, þar réði glaðværð ríkjum og tónlist var í hávegum höfð. Eftir að börnin voru flogin úr hreiðrinu vann hún hjá Sjúkrasamlaginu á Siglufirði og síðar hjá Sýslumanninum á Siglufirði þar til þau Óli fluttu á Seltjarnarnesið 1996. Hún starfaði með Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra og Slysavarnafélagi Íslands. Síðustu 15 árin átti Margrét heimili á Seltjarnarnesi í nábýli við Guðrúnu dóttur sína og Friðrik eiginmann hennar. Útför Margrétar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 7. október 2011, og hefst athöfnin klukkan 13.

Leiðir okkar Grétu tengdamóður minnar og Óla lágu fyrst saman þegar við Olla elsta dóttir þeirra hjóna lukum stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 17. júní 1962. Þá var stundin runnin upp, nú skyldi kynna væntanlegan tengdason. Ég kveið hálfpartinn fyrir þessum fyrstu kynnum. Kvíðinn var ástæðulaust. Viðmót þeirra hjóna var hlýlegt og frá þeim stafaði gleði, sem var allt að því gáskafull. Gréta kom mér fyrir sjónir sem ákaflega yndisleg og aðlaðandi kona. Hún stakk við og hafði búið við ákveðna fötlun frá fæðingu. Annar fóturinn var styttri en hinn. Hún var áberandi hlédrægari en Óli, sem alltaf var hrókur alls fagnaðar hvar sem hann var. Hún virtist hins vegar hafa ákveðna forystu fyrir þeim hjónum í allri sinni hógværð. Síðar átti ég eftir að kynnast íhygli hennar og frábærum mannkostum. Ég er viss um að þau hefði bæði viljað standa í okkar sporum með hvítu húfurnar. Hún hafði alltaf verðið afburðanámsmaður og Óli var óvenjuvíðlesinn og menningarlega sinnaður, en tækifærin buðu ekki upp á framhaldsnám þegar þau voru ung.

Létt lund og glaðværð einkenndi heimilislífið á Háveginum. Þau hjónin höfðu bæði yndi af söng og tónlist. Gréta gat gripið í gítarinn ef svo bar við og Óli lék á mörg hljóðfæri. Í börnum og barnabörnum koma erfðaeinkennin fram í tónlistinni að meira að minna leyti hjá flestum. Þegar fram liðu stundir kynntist ég fjölskyldunni betur. Mér er alltaf minnisstætt þegar ég hitti fyrst Ólöfu, móður Grétu. Hún bauð okkur í mat inn í Hlíðarhús. Allt var þar með einföldum og fáguðum myndarbrag. Maturinn var frábær og framreiddur af fágætri smekkvísi, enda hafði hún numið matargerð í Kaupmannahöfn ung að árum. Við fyrstu kynni skildist strax að þarna fór kona sem hafði gömul og góð gildi í hávegum. Á skilmerkilegan hátt sagði hún mér frá forfeðrum, ætt og uppruna dótturdóttur sinnar. Seinna áttaði ég mig á að tengdamóðir mín var ekki síðri, þegar matreiðslan var annars vegar. Aldrei hef ég fengið betri lambahrygg en hjá henni. Skorpan hæfilega krydduð og stökk og öll umgjörðin með sérlega fáguðum brag.

Alltaf var mikið ævintýri að heimsækja Óla og Grétu til Siglufjarðar. Rósa dóttir tók strax fram búðardótið, auglýsti opna búð og fór í búðarleik við ömmu og afa og strákarnir undu sér vel innan um allar bækurnar í bókasafninu. Á Siglufirði voru þau í sínu örugga og vinalega umhverfi sem þau höfðu mótað sjálf. Þar þekktu þau allt og alla og væri farið í bæinn var kastað kveðju á alla sem á leið þeirra urðu. En ekkert varir óbreytt að eilífu. Þó svo að vel færi um þau á Nesinu í sambýli við sína nánustu, fannst mér alltaf einhver tregi í þeim og söknuður eftir Siglufirði. Ég sakna þess að hafa ekki umgengist mína elskulegu tengdamóður meir en raunin varð, en við bjuggum á sitt hvoru landshorninu og því erfitt um vik.

Að leiðarlokum þakka ég tengdamóður minni samfylgdina. Öllum ástvinum sendi ég samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Sveinn Þórarinsson.

Manngæska, æðruleysi, umburðarlyndi og gleði er það sem sterkast leitar á huga minn þegar ég lít yfir þau ár sem ég naut þeirra forréttinda að eiga Grétu sem tengdamömmu. Þau voru svo ótrúlega ólík en um leið samstiga hjón þau Gréta og Óli. Minningin um Grétu er svo samofin minningum um þau tvö að mér reynist erfitt að skrifa um annað þeirra án þess að nefna hitt.

Ótal stundir þar sem Óli tengdapabbi sagði sögur og inni á milli heyrist í Grétu: „Nei, Óli minn, þetta var nú ekki alveg svona“ og þá brosti sá gamli og vissi alltaf að innskotin hennar Grétu leiddu hann á rétta braut. Sterk og hljóð kona sem alltaf hafði hlutina á hreinu. Gleðin var alltaf stutt undan og samspil þeirra á milli svo ótrúlega sterkt að við fráfall Óla fannst manni nánast óhugsandi að sjá Grétu eina, en enn kom hennar innri styrkur í ljós. Það sem gerði þau svo sérstök var sú virðing og væntumþykja sem var á milli þeirra. Gréta gat alltaf brosað út í annað þegar Óli komst á flug í frásögum sínum og virðing hans fyrir rökum Grétu var takmarkalaus. Það er svo margt sem við sem yngri erum getum lært af einlægu sambandi þeirra.

Þær voru margar yndislegar stundirnar sem við áttum með þeim en sérlega eftirminnilegar eru heimsóknir þeirra til okkar í Skotlandi. Ferðir sem við fórum með þeim á ólíka staði, St. Andrew's, Edinborg, Stirling, Perth og Glamis-kastali svo nokkuð sé nefnt og alltaf voru þau jafn ánægð og upprifin yfir því litla sem fyrir þau var gert.

Minningar frá Háveginum á Siglufirði þar sem alltaf var vel tekið á móti okkur. Gaman var að fylgjast með samræðum þeirra hjóna, stundir við eldhúsborðið þar sem margt var rætt og einlægur áhugi þeirra að fylgjast með öllu því sem var að gerast í þjóðfélaginu kom svo skýrt í ljós. Smáu hlutirnir voru gjarnan það sem þau pössuðu vel, eitthvað sem skipti okkur öll svo miklu, aldrei í gegnum árin leið afmæli öðruvísi en að þau hringdu sama hversu langt var á milli þeirra staða sem dvalið var á hverju sinni. Grétu var margt til lista lagt og góð matseld var eitt af því sem við sem þekktum hana nutum oft. Alltaf var hún að klippa út og halda til haga góðum uppskriftum og enn í dag er það sérstök stund á okkar heimili þegar við bjóðum upp á fiskibollurnar hennar ömmu Grétu.

Í gegnum árin höfum við farið reglulega til Siglufjarðar og þá börnin okkar Sigurðar með og það er í mörgu makalaust að finna hvernig tengingar þeirra við Siglufjörð vaxa og dafna og þar held ég að notalegar minningar um afa Óla og ömmu Grétu skipti mestu. Lítið en um leið svo friðsælt hús að koma í þar sem oft eru rifjaðar upp sögur frá uppvaxtarárum þeirra systkina á Sigló.

Hávegurinn verður alltaf sá staður sem kallar fram sterkar myndir um þau Grétu og Óla. Nú er það okkar að viðhalda og bæta í gott safn minninga.

Ég kveð með miklum söknuði tengdamóður mína en veit að ef til er líf eftir þetta líf þá situr hún eflaust núna í góðu yfirlæti við hlið Óla.

Linda Björk Guðmundsdóttir.

Það er komið að kveðjustund og kveð ég ömmu Grétu með söknuði. Þegar ég var lítil bjuggu afi Óli og amma Gréta á Háveginum á Siglufirði, lengst uppi í fjalli. Það var alltaf gott að koma til þeirra og fá að leika sér með allt gamla dótið, prófa öll hljóðfærin, spila mastermind og kíkja í bækurnar sem voru alls ráðandi á heimilinu. Þegar ég var unglingur fluttu amma og afi á neðri hæðina hjá okkur á Unnarbrautinni og urðu samverustundirnar fleiri. Það var ómetanlegt að fá að alast upp svona nálægt þeim, að geta farið niður á neðri hæðina og spjallað við þau þegar manni sýndist, oftar en ekki um árin á Siglufirði eða ferðina til Manchester. Menntun var ömmu og afa mikilvæg og hvöttu þau mann óspart áfram að ganga menntaveginn og glöddust þegar maður kom heim með nýjar einkunnir. Samrýndari hjón er varla hægt að finna og vináttan á milli þeirra var einstök. Þau gátu spjallað saman um heima og geima og alltaf var stutt í dillandi hláturinn og húmorinn. Amma Gréta var einstaklega skapgóð, ljúf og blíð manneskja sem alltaf var notalegt að vera í kringum. Ég veit að amma er hvíldinni fegin og kveð ég ömmu mína og nöfnu með miklu þakklæti fyrir það sem hún kenndi mér og þann tíma sem við áttum saman.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Margrét.

Margréti Björnsdóttur kynntist ég þegar við hófum nám í fyrsta bekk í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar haustið 1937.

Skólinn var staðsettur í risi á nýbyggðri og glæsilegri kirkju Siglfirðinga og voru menn ekki á eitt sáttir um þá ákvörðun skólanefndar að setja skólann á kirkjuloftið. Töldu sumir það ganga guðlasti næst. Það reyndist vera skynsamleg ákvörðun að nýta hið mikla rými á kirkjuloftinu fyrir skólann og voru innréttaðar þar rúmgóðar kennslustofur með góðri aðstöðu fyrir kennara og skólastjóra.

Léttar viðarinnréttingar gerðu skólastofurnar notalegar og hlýlegar. Eftir þriggja vetra nám á kirkjuloftinu vorið 1940 lukum við gagnfræðaprófi. Margir góðir nemendur voru í bekknum, en alltaf var Margrét Björnsdóttir með hæstu einkunn. Á þessum tíma voru tölvur og farsímar ekki komnir til sögunnar. Við stunduðum námið vel og lékum okkur mikið úti við.

Margrét ólst upp við mikið ástríki á myndarlegu heimili þar sem allt var í föstum skorðum. Hún átti systur, Guðbjörgu, sem var nokkrum árum eldri. Móðir þeirra, Ólöf í Hlíðarhúsi, var oft fengin til aðstoðar þegar húsmæður á Siglufirði þurftu að halda matarveislur. Hlíðarhús könnuðust allir Siglfirðingar við. Það stóð innarlega í firðinum, eitt og sér ofarlega í fjallshlíðinni í nokkurri fjarlægð frá öðrum húsum.

Margrét var hölt og stakk við fæti þegar hún gekk. Var það vegna galla í mjaðmarlið frá fæðingu sem ekki reyndist unnt að ráða bóta á, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Að sjálfsögðu olli þetta Margréti nokkrum erfiðleikum. Það var töluverður spölur sem þurfti að ganga til og frá í skólann og snjóþyngsli mikil á Siglufirði á þessum árum. En Margrét bar sig vel. Hún var fínleg og falleg og þeir sem kynntust henni mundu best eftir glaðlegu og hlýlegu viðmóti hennar. Mér er sérstaklega minnisstætt hvað hún hafði fallega rithönd. Ekki var þess vart að hún teldi sig öðrum fremri vegna yfirburða námshæfileika.

Þegar við vorum á þriðja vetri í skólanum kynntist Margrét Óla Jósepssyni Blöndal sem síðar varð eiginmaður hennar. Átján ára að aldri fæddi hún fyrsta barn þeirra. Hjónabandið var farsælt og hamingjusamt. Börn þeirra eru; Ólöf Birna Blöndal, kennari og listmálari, Jósep Ó. Blöndal, yfirlæknir á St. Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi, Ásbjörn Ó. Blöndal verkfræðingur, Sigurður Ó. Blöndal skurðlæknir og Guðrún Ó. Blöndal framkvæmdastjóri.

Síðustu ár Margrétar voru henni erfið vegna vanheilsu. Svo er einnig hjá flestum okkar sem erum komin á efri ár. Ég þakka henni fyrir þær stundir sem við áttum saman og bið afkomendum hennar Guðs blessunar.

Gyða Jóhannsdóttir.