Tækni „Alveg ómissandi," segir Bragi Guðmundsson leigubílstjóri sem finnst leiðsögutæki hafa létt sér starfið til muna.
Tækni „Alveg ómissandi," segir Bragi Guðmundsson leigubílstjóri sem finnst leiðsögutæki hafa létt sér starfið til muna. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leiðsögutækin góð þegar rökkvað er orðið. Ómissandi fyrir leigubílstjóra og fyrir ókunnuga í úthverfunum. Garmin er góður. Reynast vel í Evrópuferðum í þungri umferð um stórborgir í Þýskalandi.

GPS-leiðsögutæki í leigubílnum er þarfaþing. Þeir sem eru búnir að vera lengi í þessari útgerð segjast að vísu vilja halda sér í æfingu og leggja á minnið hverjar leiðirnar eru. Sjálfum finnst mér hins vegar alveg ómissandi að hafa svona tæki; enda hefur borgin stækkað mikið á síðustu áratugum og þeirri þróun hefur maður ekki fylgt eftir þannig að maður rati í hverja einustu götu,“ segir Bragi Guðmundsson leigubílstjóri.

Tæp tíu ár eru síðan Bragi hóf störf við leigubílakstur. Gjaldmælir og talstöð er staðalbúnaður í sérhverjum bíl en fleira hefur bæst við á undanförnum árum sem auðveldar bílstjórum starfið. Leiðsögutækin ber þar hæst og er Garmin líklegast þekktasta merkið.

Frá núllpunkti í Austurstræti

„Í sjálfu sér er ekki tiltakanlega flókið að rata um Reykjavík. Aðalstrætið er núllpunktur og út frá því liggja allar leiðir samkvæmt þeirri einföldu reglu að oddatölur húsa eru jafnan á vinstri hönd. Í eldri hverfum borgarinnar, til dæmis Norðurmýri og Fossvogi, eru götur í stafrófsröð og auðvelt að finna þær. Í nýrri hverfum er ekki jafn gott skipulag á þessu og þá er nánast ómissandi að hafa leiðsögutæki. Ég var lengi vel alltaf með símaskrá með kortunum góðu í hliðarhólfi í bílstjórahurðinni. Núna hefur tækið hins vegar leyst símaskrána af og ég gæti varla verið án þess,“ segir Bragi sem bætir við að sérstaklega reynist tækin vel á kvöldferðum þegar rökkvað er orðið. Þá sé vandinn ekki annar en slá inn götuheiti og húsnúmeri og tækið beinlínis leiði menn á áfangastað.

Ódýrasta útgáfa GPS-leiðsögutækja kostar um það bil 30 þúsund krónur. Tækin eru þá með kortum af Evrópu allri – þar með töldu Íslandi – og hægt er að skipuleggja ferðir mjög nákvæmlega, finna út stystu og hagstæðustu leiðina og svo mætti áfram telja.

Í gegnum allar flækjurnar

„Að hafa þessi tæki við höndina auðveldar öll ferðalög til mikilla muna,“ segir Stefán Ásgrímsson, ritstjóri hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Hann var á síðasta ári í Danmörku þaðan sem hann ók um 1.200 kílómetra suður Þýskaland til München. Segist nokkrum sinnum hafa farið leiðina áður og því þekkt hana í grófum dráttum. Tækið hafi hins vegar þegar á reyndi komið sér ákaflega vel.

„Ég bjó í austurhluta München og fór nokkra daga í röð alltaf í vesturhlutann þar sem ég var að kynna mér starfsemi þýsks systurfélags FÍB. Umferðarþunginn í hinni þýsku stórborg er mikill og þá kom sér vel að vera með svona tæki, sem leiddi mig í gegnum allar flækjurnar og gaf mér nákvæma staðsetningu svo að segja upp á punt og prik. Leiddi mig í gegnum þykkt og þunnt. Og hið sama gerir tækið hér heima. Ég þekki sáralítið til í úthverfunum til dæmis í Grafarholtinu þar sem eru Prestastígur, Kirkjustétt og Vínlandsleið, slóðir sem ég þekki afar lítið. Ég væri hins vegar afskaplega vel settur með leiðsögutækið í bílnum skyldi ég þurfa að álpast þangað,“ segir Stefán Ásgrímsson.

sbs@mbl.is