Heiðraður Tomas Tranströmer á heimili sínu í Stokkhólmi.
Heiðraður Tomas Tranströmer á heimili sínu í Stokkhólmi. — Reuters
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Sænska ljóðskáldið og þýðandinn Tomas Tranströmer hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels að þessu sinni.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Sænska ljóðskáldið og þýðandinn Tomas Tranströmer hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels að þessu sinni. Í fréttatilkynningu sænsku akademíunnar segir að Tranströmer hljóti verðlaunin vegna þess að hann veiti okkur „ferska sýn á veruleikann með þéttum og hálfgegnsæjum myndum“.

Tranströmer fæddist 1931, hann lærði bókmenntir, trúarbragðafræði og sálfræði við Stokkhólmsháskóla. Um hríð var hann sálfræðingur á upptökuheimili fyrir ungmenni. Árið 1990 fékk Tranströmer heilablóðfall og missti málið, hann getur ekki gengið og hefur lítið getað ort, á síðustu árum hefur hann einbeitt sér að hækum.

Tranströmer hefur oft heimsótt Ísland og á marga vini meðal hérlendra skálda, nokkrar af bókum hans hafa komið út á íslensku. Ingibjörg Haraldsdóttir þýddi ljóðabókina Sorgargondól en áður höfðu Njörður P. Njarðvík og Jóhann Hjálmarsson þýtt ljóð eftir Tranströmer.

„Hann er vel að þessu kominn,“ segir Njörður. „Hann hefur ekki ort mikið en ljóðin hans eru hreint út sagt frábær. Ég þýddi alla bókina sem hann hlaut verðlaun Norðurlandaráðs fyrir og úrval úr fyrri bókum hans, allt safnið heitir Tré og himinn.“ Tranströmer hafi oft verið tilnefndur en Njörður segir aðspurður að nóbelsnefndin hafi líklega verið treg til að veita Svía verðlaunin.

Bráðgert skáld
» Fyrsta ljóðabók Tranströmers, 17 dikter, kom út 1954 og hlaut mikið lof.
» Ljóð hans hafa verið þýdd á um 50 tungumál. Endurminningar hans, Minnena ser mig, komu út árið 1993.
» Tranströmer fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1990 fyrir bókina För levende och döda.