Valgerður Bjarnadóttir
Valgerður Bjarnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hjörtur J. Guðmundsson hjorturjg@mbl.

Baksvið

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturjg@mbl.is

„Það er ljóst mál að Evrópusambandið lítur ekki svo á að það verði á næstunni tekist á við stóru ágreiningsmálin sem uppi eru á milli Íslands og sambandsins svo sem í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Kaflarnir sem lúta að þessum tveimur málaflokkum verða ekki opnaðir strax,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is í gær.

Þriðji fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og þings Evrópusambandsins vegna umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið fór fram í Brussel í gær en Einar var á meðal þeirra níu íslensku þingmanna sem sátu fundinn. Hann segir íslensku þingmennina á fundinum hafa spurt mjög eftir því hvenær sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin yrðu tekin fyrir og talið eðlilegast að þau yrðu tekin strax til umræðu.

Aðspurður hvort fram hafi komið á fundinum hvenær kaflarnir tveir yrðu teknir fyrir segir Einar að fulltrúar Evrópusambandsins hafi forðast mjög að nefna einhverjar ákveðnar dagsetningar í þeim efnum. „En ég held að það sé alveg ljóst mál að við séum frekar að tala um mánuði en vikur.“

Heimavinnan óunnin

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, staðfesti í samtali við mbl.is að sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflarnir yrðu ekki teknir fyrir strax að mati Evrópusambandsins, en hún sat einnig fund sameiginlegu nefndarinnar.

Hún segir að landbúnaðarmálin verði örugglega ekki tekin fyrir á þessu ári vegna þess að landbúnaðarráðuneytið hafi ekki unnið þá heimavinnu sem Evrópusambandið hafi farið fram á áður en sá kafli yrði opnaður. Boltinn væri hins vegar hjá sambandinu varðandi sjávarútvegsmálin en tafir í þeim efnum væru vegna yfirstandandi breytinga á sjávarútvegsstefnu þess.

Valgerður segir að fram hafi komið í máli fulltrúa Evrópusambandsins á fundinum að umsóknarferlið gengi að öðru leyti vel að þeirra mati og samkvæmt áætlun. Þá hafi komið fram að ekki þyrfti að ráðast í neinar breytingar á fyrirkomulagi landbúnaðarmála hér á landi samhliða viðræðum um þau en hins vegar yrði að setja saman áætlanir um þær breytingar sem gera þyrfti.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur ítrekað sagt að taka bæri sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin fyrir sem fyrst í viðræðunum við Evrópusambandið.

Evrópumálin
» Erfiðustu kaflarnir í viðræðum við ESB, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin, verða ekki opnaðir strax að sögn þingmanna.
» Utanríkisráðherra hefur talað fyrir því að erfiðustu kaflarnir verði teknir fyrir sem fyrst í viðræðunum.