Gengið hefur verið að tilboðum í þrjár fasteignir Orkuveitu Reykjavíkur sem auglýstar voru til sölu í vor og í sumar.

Gengið hefur verið að tilboðum í þrjár fasteignir Orkuveitu Reykjavíkur sem auglýstar voru til sölu í vor og í sumar. Það eru hinar samliggjandi jarðir Hvammur og Hvammsvík í Kjós, Hótel Hengill á Nesjavöllum og húsnæði í Elliðaárdal, sem hýsti minjasafn OR.

Samanlagt söluverð eignanna nemur 465 milljónum króna . Það er heldur meira en væntingar OR stóðu til, sem byggðar voru á mati sérfræðinga á fasteignamarkaði, að því er OR segir í tilkynningu.

Jarðirnar Hvammur og Hvammsvík voru auglýstar til sölu í vor. Var gengið til samninga við hæstbjóðanda og fengust 155 milljónir króna fyrir eignina.

Í tilkynningunni segir að hæsta tilboði í Hótel Hengil hafi verið tekið og nemi það 210 milljónum króna. Að Rafstöðvarvegi 9 rak OR minjasafn þar til síðastliðið haust að starfseminni var hætt. Var hæsta tilboði í hana tekið. Það er 100 milljónir króna.