Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Nokkur óánægja hefur verið meðal áskrifenda tölvuleiksins Eve Online í kjölfar breytinga sem nýlega voru gerðar á leiknum.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Nokkur óánægja hefur verið meðal áskrifenda tölvuleiksins Eve Online í kjölfar breytinga sem nýlega voru gerðar á leiknum. Í bloggfærslu á vef Eve Online biðst Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, framleiðanda leiksins, afsökunar og segist bera alla ábyrgð á því að margir notendur hafi horfið frá leiknum að undanförnu.

Í sumar gerði CCP kunnug áform sín um að leyfa kaup á hlutum fyrir raunverulega peninga í leiknum. Þetta vakti litla hrifningu áskrifenda. Í bloggfærslu sinni segir Hilmar að fólk eigi ekki að geta keypt sér leið til sigurs í leiknum. Þar segir ennfremur að tilgangurinn hafi verið að auka möguleika í leiknum. Umhverfi tölvuleikja á borð við Eve taki sífelldum breytingum og þeim fækki sífellt sem gerist áskrifendur.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Hilmar að hann vildi ekkert tjá sig um málið, allt sem máli skipti kæmi fram í bloggfærslunni. Spurður að því hversu margir áskrifendur Eve Online hefðu sagt upp áskriftinni að undanförnu, svaraði hann: „Við viljum ekkert gefa út um það.“