Þuríður Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík hinn 22. júní 1929. Hún lést á heimili sínu, Strikinu 4, 25. september 2011.

Foreldrar hennar voru Ólafur Einarsson, f. 19.1. 1894, d. 8.6. 1960, og Dórótea Árnadóttir, f. 21.9. 1895, d. 26.10. 1964. Þuríður var ein af 5 systkinum en þau eru Hjálmar, f. 25.8. 1924, d. 27.6. 1984, Sigrún, f. 3.1. 1927, d. 27.12. 1992, Árni, f. 25.8. 1930, d. 2.2. 2003, og Anna, f. 2.9. 1932.

Árið 1951 giftist Þuríður eftirlifandi eiginmanni sínum Magnúsi Guðjónssyni, f. 24.11. 1925. Þau hófu búskap á Ísafirði en bjuggu nánast allan sinn búskap í Laugarneshverfi í Reykjavík, fyrst við Laugarnesveg og síðan við Laugalæk eða frá 1952 til 2008 er þau fluttu að Strikinu 4, Garðabæ. Þau eignuðust þrjú börn: 1) Guðjón, f. 1950, kona hans Jóhanna Smith, f. 1955, d. 1995, þeirra dætur eru Unnur, f. 1978, sambýlismaður Hjalti Páll Sigurðsson og Hildur, f. 1982. 2) Ólafur, f. 1952, kvæntur Tamöru Suturinu, f. 1952. Börn Ólafs eru: Ásta Björk, f. 1972, maki Sigurður Lárusson, börn þeirra eru Guðrún Ingibjörg, f. 1994, og Elísa Rut, f. 2011. Magnús, f. 1975, maki Jette Corfitzen, börn þeirra William, f. 2005 og Anna, f. 2009. Bjarni, f. 1980. 3) Jóhann, f. 1956, kvæntur Kristínu Björgu Jónsdóttur, f. 1958, börn þeirra eru Helga Kristín, f. 1985, Harpa Hrund, f. 1988, og Jón Atli, f. 1991.

Þuríður verður jarðsungin frá Laugarneskirkju í dag, 7. október 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Það eru margar góðar minningar um góðar stundir sem ég hef átt með ömmu og afa á Laugalæknum, þar var svo gott að vera. Þangað var alltaf gott að koma, þar voru alltaf til súkkulaðirúsínur og perubrjóstsykur. Þar var líka eini staðurinn sem ég mátti fá allan þann sykur sem ég vildi í teið mitt, loksins.

Það voru ófáar stundirnar sem fóru í búðaleik með Monopoly peningunum og dúkkuleik í dúkkuhúsinu. Ekki má gleyma prinsessuleik í fínu sloppunum og hjá ömmu fengum við alltaf rauðan varalit, maður gerist nú ekki meiri prinsessa en það.

Það var hún elsku amma sem kenndi mér að prjóna með gula garninu og í hvert skipti sem ég kom í heimsókn lengdist guli renningurinn örlítið. Því mun ég aldrei gleyma þó svo að prjónahæfileikarnir hafi ekki verið nýttir sem skyldi.

Mig langar að þakka fyrir þessar stundir sem ég átti með henni ömmu undir hennar síðasta. Það var svo gott að fá að sitja og halda í hönd hennar, spjalla og kveðja hana áður en hún fór.

Góða nótt, elsku amma mín, sofðu rótt.

Þín,

Harpa Hrund.

Það er komið að kveðjustund, góð vinkona okkar til áratuga, Þuríður Ólafsdóttir, hefur kvatt þennan heim.

Vinátta okkar og Þuríar, eins og hún var alltaf kölluð, hefur verið óslitin síðan hún og Magnús Guðjónsson, frændi minn, gengu í hjónaband.

Þegar við Guðbjörg höfðum nýlega trúlofað okkur hittum við Magga og Þurí niðri í bæ á 17. júní. Þau buðu okkur heim til sín á Laugarnesið og má að segja að upp frá þeirri stundu hafi mjög gott samband verið á milli okkar. Það var alltaf gott að koma á heimili þeirra og Þurí var í alla staði góður gestgjafi. Ég minnist líka góðra stunda þegar Þurí bauð mér, ungum námsmanninum, oft í sunnudagsmat eftir að ég flutti til Reykjavíkur.

Þurí var einstök kona og bjó ávallt yfir mikilli reisn. Hún hafði ríka réttlætiskennd og vildi öllum vel. Umfram allt hafði hún þó þann góða eiginleika að vera skemmtileg og hún kunni þá list að segja frá. Það var alltaf gaman að vera í návist hennar.

Þurí og Maggi voru að sjálfsögðu meðal gesta í brúðkaupi okkar Guðbjargar í ágúst1961. Þau hafa síðan verið fastir gestir hjá okkur þegar haldið hefur verið upp á viðburði innan fjölskyldunnar og við höfum samfagnað þeim við sömu tilefni í þeirra fjölskyldu.

Þurí og Maggi heiðruðu okkur líka með nærveru sinni þegar við héldum upp á gullbrúðkaup okkar 19. ágúst síðastliðinn. Þá var Þurí hin hressasta. Viku síðar fengum þær harmafregnir að hún hefði greinst með illvígt mein sem að lokum felldi hana. Hún lést 24. september eftir stutta en erfiða banalegu.

Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til Magga og fjölskyldu.

Blessuð sé minning Þuríðar Ólafsdóttur.

Sverrir og Guðbjörg.

Ég hafði farið í göngutúr þegar ég sé stórglæsileg hjón koma á móti mér og hugsaði hvern skyldu þau vera að heimsækja? Það leyndi sér ekki, þau voru að heimsækja mig á „Rauðakrosshótelið“ við Rauðarárstíg. Svona voru þau alltaf, sama hvað þau tóku sér fyrir hendur, allt var það vel gert og fallegt, því þau voru fagurkerar.

Þau eignuðust þrjá mannvænlega syni sem stóðu eins og klettur með pabba sínum og vöktu yfir móður sinni þar til yfir lauk, ekki lágu tengdadætur á liði sínu en ein þeirra er látin. Svo er ekki verra að eiga barnabörn sem eru læknar. Öll barnabörnin voru efst í huga þeirra og mest þau sem lengst voru í burtu.

Þetta stríð tók fljótt af og sáu Karitas og aðstandendur um að þú þyrftir ekki að líða mikið. Þú varst heima allan tímann.

Við andlátsfregn þína,

allt stöðvast í tímans ranni.

Og sorgin mig grípur,

en segja ég vil með sanni,

að ósk mín um bata þinn,

tjáð var í bænunum mínum,

en Guð vildi fá þig,

og hafa með englunum sínum.

Við getum ei breytt því

sem frelsarinn hefur að segja.

Um hver fær að lifa,

og hver á svo næstur að deyja.

Þau örlög sem við höfum hlotið,

það verður að skilja.

Svo auðmjúk og hljóð,

við lútum að frelsarans vilja.

Þó sorgin sé sár,

og erfitt er við hana að una.

Við verðum að skilja,

og alltaf við verðum að muna,

að Guð hann er góður,

og veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú,

að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farin þú sért,

og horfin ert burt þessum heimi.

Ég minningu þína,

þá ávallt í hjarta mér geymi.

Ástvini þína, ég bið síðan

Guð minn að styðja,

og þerra burt tárin,

ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Halldóra Jónsdóttir)

Samúðarkveðjur frá bekkjasystrum þínum í Laugarnesskólanum,

Bryndís, Erla, Laufey, Magna, Margrét, Sigríður

og Steinunn.

Það er mjög erfitt að setjast niður og skrifa þessa minningargrein því við trúum ekki að Þuríður okkar sé farin svona alltof fljótt. Það koma margar góðar minningar upp í hugann þegar ég hugsa til hennar. Alltaf fín og skemmtileg, alltaf í góðu skapi og alltaf tilbúin að hjálpa eða gera eitthvað fyrir börn, barnabörn eða langömmubörn. Prjóna, sauma eða baka, hún gat gert allt. Nú síðast fengu þrjú yngstu langömmubörnin frábær hekluð teppi sem munu alltaf minna á langömmu þeirra.

Þuríður var kona sem hugsaði fyrst og fremst um fjölskylduna og heimilið. Það var alltaf notalegt og gaman að koma í heimsókn. „Hjónabandssæla“ er fyrst orð sem kemur í huga mér þegar ég hugsa til hennar. Þetta var uppskrift kökunnar ég smakkaði hjá henni þegar ég kom til Íslands. Tíminn leið og þegar ég kynntist henni betur skildi ég að þetta er ekki aðeins kökuuppskrift heldur jafnframt uppskrift að því hvernig á að halda utan um stórfjölskylduna, vini og vandamenn. Jólahlaðborð var ekki fullkomið ef við fengum ekki frómasið okkar!

Þuríður var frábær tengdamóðir og núna þegar ég er orðin tengdó sjálf skil ég betur hve góð hún var við mig, útlenda tengdadótturina, alltaf jákvæð og þolinmóð. Hún hjálpaði mér mikið við að aðlagast Íslandi sem hjálpaði mér að líða vel.

Tengdó mín var mjög fín kona með frábæran smekk og fylgdist alltaf vel með nýjustu tísku og straumum. Stundum þegar við fórum í kaffi eða að kíkja í verslanir og þegar sá hún eitthvað freistandi sagði hún stundum „kannski ekki núna, ég fæ mér þetta í næsta lífi“. Ég vona að hún geti fengið allt sem hana langaði til að fá í næsta lífinu.

Erfitt að nota orðið „var“, ég segi ennþá: „Eigum við að heimsækja mömmu og pabba“ og gleymi því að hún er farin.

Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst henni og mun varðveita minningu hennar,

Guð blessi þig, elsku Þurí mín.

Tamara Suturina.