Helgistund Fjöldi manna safnaðist saman fyrir utan verslanir Apple víða um heim, lagði þar blóm og minningarkort og baðst fyrir.
Helgistund Fjöldi manna safnaðist saman fyrir utan verslanir Apple víða um heim, lagði þar blóm og minningarkort og baðst fyrir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Árni Matthíasson arnim@mbl.is Steven Paul „Steve“ Jobs, frammámaður og helsti hugmyndasmiður Apple tölvufyrirtækisins, er látinn eftir langvarandi veikindi.

Fréttaskýring

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Steven Paul „Steve“ Jobs, frammámaður og helsti hugmyndasmiður Apple tölvufyrirtækisins, er látinn eftir langvarandi veikindi. Með honum er genginn einn merkasti hugsuður tölvusögunnar, áhrifamikill og frumlegur markaðsmaður sem las framtíðina betur en flestir. Hann stofnaði Apple fyrir hálfum fjórða áratug og þó hann hafi horfið frá fyrirtækinu um hríð sneri hann aftur og gerði það að einu helsta og verðmætasta fyrirtæki heims þar sem áhersla á frumlega hönnun og nýstárlega tækni var í öndvegi.

Steve Jobs stofnaði Apple með félögum sínum í apríl 1976 til að selja tölvur sem kaupandinn sá um að setja saman. Jobs sá um markaðs- og sölumál og varð smám saman leiðandi í samstarfinu sem hugmyndasmiður. Hann var til að mynda áfram um það að Apple framleiddi tölvur með myndrænum notendaskilum og mús, líkt og velflestir tölvunotendur nota í dag. Vendipunktur í sögu fyrirtækisins var er það kynnti fyrstu Macintosh-tölvuna, en Jobs stýrði einmitt þróun hennar.

Þrátt fyrir velgengni Macintosh varð Jobs undir í átökum innan fyrirtækisins þar sem stjórn þess vildi koma böndum á tilraunagleði Jobs. Á endanum hrökklaðist hann frá fyrirtækinu 1985 og stofnaði í framhaldinu annað tölvufyrirtæki, NeXT, og lagði einnig fé í teiknimyndagerð. Hann sneri svo aftur til Apple 1996.

Fyrsta merki þess að Steve Jobs væri aftur kominn til starfa hjá Apple var iMac tölvan sem kom á markað 1998. Þremur árum síðar opnaði Apple fyrstu verslanir sínar sem hafa haft mikið að segja um vinsældir Apple-varnings víða um heim og ímynd fyrirtækisins. Sama haust kom svo á markað spilastokkur, iPod, sem olli straumhvörfum í dreifingu og sölu á tónlist, en Apple tók einnig til við að selja tónlist á netinu í svonefndri iTunes-verslun.

Fleiri áhrifamiklar nýjungar voru í undirbúningi; fyrirtækið bylti farsímamarkaði með nýrri gerð farsíma, iPhone, sem voru með snertiskjá í stað hnappa og gátu keyrt fjölda forrita. Síðasta nýjungin sem Jobs kynnti var svo spjaldtölva, iPad, sem er tölva með snertiskjá.

Jobs greindist með krabbamein í brisi 2004 og gekkst undir lifrarígræðslu 2009. Í janúar sl. fór hann í ótímabundið sjúkraleyfi og lést svo á miðvikudag.

Eins og getið er í upphafi var Steve Jobs hugmyndaríkur og framsýnn. Hann var þó ekki óumdeildur, þótti ráðríkur og uppivöðslusamur ákafamaður, eins og títt er með hugsjónamenn. Samstarfsmenn hans höfðu á orði að hann væri með slíka persónutöfra að hann gæti fengið menn til að fallast á hvaða hugdettu sem væri og vanmeta alla erfiðleika við að framkvæma hana. Margar af hugmyndun Jobs eru viðteknar í nútíma tölvuvinnslu, sumar löngu eftir að menn höfðu hafnað þeim, en aðrar gengu aldrei upp eins og gengur. Persóna Steve Jobs var svo samþætt ímynd Apple að eflaust mun reynast fyrirtækinu erfitt að halda stöðu sinni að honum gengnum. Það segir sitt að fjöldi manna safnaðist saman fyrir utan höfuðstöðvar Apple þegar lát Jobs spurðist og við verslanir fyrirtækisins víða um heim, lagði þar blóm og minningarkort, kveikti á kertum og reykelsi og baðst fyrir. Sér einhver það gerast þegar Bill Gates Microsoft-bóndi fellur frá?

STEVE JOBS (1955 - 2011)

Nokkrir kaflar í Jobsbók

1976 Steve Jobs stofnar Apple með félögum sínum.

1984 Fyrsta Macintosh-tölvan kemur á markað.

1985 Jobs hrökklast frá Apple, stofnar NeXT og leggur fé í Pixar teiknimyndafyrirtækið.

1996 Jobs snýr aftur til Apple

1998 iMac kemur á markað.

2001 Nýtt stýrikerfi Apple, MacOS X, gerbreytir vinnsluumhverfi Macintosh-tölva.

2001 iPod-spilastokkurinn kemur á markað og iTunes verslunin opnuð.

2007 iPhone-farsíminn kynntur.

2010 iPad spjaldtölvan kynnt.