George Soros
George Soros
Kristján Jónsson kjon@mbl.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Bandaríski fjárfestirinn og auðkýfingurinn George Soros varð fyrir áfalli í gær er Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg komst að þeirri niðurstöðu að réttmætt hefði verið hjá dómstóli í Frakklandi að dæma hann fyrir innherjasvik árið 2002. Soros er á seinni árum þekktur fyrir að sveifla refsivendinum yfir fjármálalífinu og hvetja menn til að bæta siðferðið. Hann hefur lagt fram fé í margs konar framfaraviðleitni í Mið- og A-Evrópu en Soros er fæddur í Ungverjalandi.

Fjórir af sjö dómurum Mannréttindadómstólsins sögðu að ekki hefði verið brotið gegn mannréttindum Soros í málinu á sínum tíma. Soros var að sögn Wall Street Journal dæmdur fyrir hafa nýtt sér innherjaupplýsingar er hann keypti og seldi síðar með hagnaði hlutabréf í franska bankanum Societe Generale en viðskiptin fóru fram 1988. Var hann dæmdur til að greiða 2,2 milljónir evra, liðlega 350 milljónir króna, í sekt sem reyndar var síðar lækkuð. Soros bar mál sitt undir Mannréttindadómstólinn árið 2006.

Eftirlitsnefnd verðbréfa studdi Soros

Soros segir að dómurinn 2002 hafi byggst á óáreiðanlegum vitnisburði. Einnig að hann hafi ekki fengið eðlilega málsmeðferð og lög sem dómurinn byggðist á hafi verið of óljós. Eftirlitsnefnd franska verðbréfamarkaðarins rannsakaði málið og var niðurstaða hennar að Soros hefði ekki brotið lög og reglur en dómstólar voru á öðru máli.

Hann felldi pundið
» George Soros komst í fréttirnar árið 1992 vegna skortsölu hans á breskum pundum árið 1992 en þá var deilt um það hvort Bretar yrðu að yfirgefa ERM-samstarfið.
» Skortseldi Soros pund að andvirði 10 milljarða Bandaríkjadollara og græddi á einum degi 1,1 milljarð dollara, nær 120 milljarða króna.