Sigurbjörn Þorleifsson fæddist 2. júlí 1944 í Langhúsum í Fljótum. Hann varð bráðkvaddur hinn 23. september 2011.

Útför Sigurbjörns fór fram frá Sauðárkrókskirkju föstudaginn 30. september 2011.

Sigurbjörn Þorleifsson frá Langhúsum hafði brennandi áhuga á hrossum og það var þess vegna sem leiðir okkar lágu saman í upphafi og eftir því sem á leið urðu samskiptin meiri og vináttan traustari.

Sigurbjörn var bóndi að ævistarfi, rak um árabil gott kúabú í Langhúsum í Fljótum, en hafði hrossin sér til dægrastyttingar, þau voru áhugamál, sem síðar varð að eins konar atvinnustarfsemi og eftir að þau Dísa fluttu á Krókinn áttu hrossin hug hans allan. Bjössi var ákaflega natinn hestamaður, nákvæmur og fór sér að engu óðslega, trippin fengu að njóta vafans. Hann fékkst við tamningar allt til æviloka og þeir sem trúðu honum fyrir trippum voru ekki sviknir af verkum hans, samviskusemin var honum í blóð borin og ef dagur féll úr af einhverjum orsökum, þá var það bætt upp síðar.

Það var harður kjarni hestamanna í Fljótum og þar fóru þeir fyrir svilarnir Sigurbjörn Þorleifsson og Símon Gestsson. Þeir voru jafnframt máttarstólpar í hestamannafélaginu Svaða. Ógleymanlegar eru ferðir þeirra félaga upp í Skagafjörð seinni part vetrar og með í för voru þeir Siggi á Ysta-Mói og Jóhannes á Reykjarhóli, en bílstjóri yfirleitt Ólafur, tengdasonur Bjössa. Það var glatt á hjalla í þessum ferðum, komið við á nokkrum bæjum, glasi lyft og lagið tekið. Ég hefði ekki viljað missa af þessum samfundum.

Bjössi var félagi í Gangnamannafélagi Austurdals og fór margar ferðir fram í Austurdal með Stefáni bónda á Keldulandi, í stóðrekstur að sumri og fjár- og stóðsmölun að hausti; þeir Stefán kunnu vel að meta hvor annan. Bjössi var frábær sögumaður og fór oft á kostum í lýsingum á slíkum ferðum, þar sem Stefán foringi var í aðalhlutverki.

Við Bjössi vorum saman í stjórn Hrossaræktarsambands Skagfirðinga um tíu ára skeið, hann varaformaður en ég formaður. Þar reyndist hann góður liðsmaður og ég leitaði oft ráða hjá honum. Bjössi var fljótur að átta sig á aðalatriðum máls og sagði sína skoðun umbúðalaust, þar lá aldrei fiskur undir steini.

En Bjössi kom víðar við þegar eitthvað stóð til hjá hestamönnum; Reiðhöllin Svaðastaðir naut ósjaldan krafta hans, fótaskoðun á kynbótasýningum og öðrum mótum var oft hlutverk hans og sem liðstjóri Skagfirðinga á Bikarmótum Norðurlands var hann betri en enginn, útsjónarsamur og hafði mikinn metnað fyrir sitt lið, sem oftar en ekki hampaði sigri.

Það er skarð fyrir skildi í röðum skagfirskra hestmanna, ósérhlífinn og frábær félagi er fallinn og við njótum ekki lengur krafta hans, en minningin um sannan heiðursmann mun lifa.

Hrossaræktarsamband Skagfirðinga stóð fyrir sölusýningu á Sauðárkróki síðdegis föstudaginn 23. september og við vorum fremur liðfáir. Þá hringdi ég í síðasta sinn í Bjössa en hann svaraði ekki, aldrei þessu vant; ég hringdi of seint.

Við hjónin á Ytra-Skörðugili sendum Dísu og öllum vandamönnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingimar Ingimarsson.