Arion banki Greiningardeild varar við breytingum á stjórn fiskveiða.
Arion banki Greiningardeild varar við breytingum á stjórn fiskveiða. — Morgunblaðið/Kristinn
Greiningardeild Arion banka telur að fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, samkvæmt frumvarpi til laga sem tekið verður fyrir á Alþingi í haust, séu varhugaverðar.

Greiningardeild Arion banka telur að fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, samkvæmt frumvarpi til laga sem tekið verður fyrir á Alþingi í haust, séu varhugaverðar. Þetta kemur fram í skýrslu um sjávarútveginn sem deildin sendi frá sér í gær.

Í skýrslunni er m.a. varað við því að varanlegt framsal aflaheimilda verði bannað, eins og gert er ráð fyrir í 7. grein frumvarpsins. Segir greiningardeild að mikil hagræðing hafi orðið í sjávarútvegi frá því framsal aflaheimilda var leyft í byrjun tíunda áratugarins. „Með því að banna framsal aflaheimilda er komið í veg fyrir að þeir aðilar sem standa betur að vígi geti orðið sér úti um kvóta. Með þessum hætti er því líklegt að bann við varanlegu framsali dragi úr hagkvæmni í sjávarútvegi,“ segir í skýrslunni.

„Aftur á móti gæti bann við framsali aflaheimilda einnig orðið til þess að smærri fyrirtæki sameinist. Ef meðalstór eða minni fyrirtæki geta ekki orðið sér úti um aflaheimildir, líkt og hagkvæmur rekstur fyrirtækja þeirra krefðist, gætu þau þurft að sameinast öðru fyrirtæki til að geta nýtt aflaheimildir þess. Bannið gæti því aukið hagræði í sjávarútvegi, en í þessu tilviki væri það á kostnað smærri fyrirtækja. Ef tilgangur bannsins er að koma í veg fyrir að aflaheimildir safnist á hendur fárra aðila má benda á að nú þegar eru takmarkanir á hversu miklar aflaheimildir útgerð má hafa til ráðstöfunar. Þetta mun því að öllum líkindum hafa mest áhrif á þau fyrirtæki sem eiga möguleika á aukinni hagræðingu í rekstri, fyrirtæki sem enn eru að stækka og með umframafkastagetu en eru ekki komin í aflahlutdeildarhámarkið,“ segir ennfremur.