Stuart Pearce
Stuart Pearce
Stuart Pearce, landsliðsþjálfari U-21 árs liðs Englands, var afar ánægður með leik sinna manna á Laugardalsvellinum í gærkvöldi þar sem England vann Ísland 3:0 í undankeppni EM.

Stuart Pearce, landsliðsþjálfari U-21 árs liðs Englands, var afar ánægður með leik sinna manna á Laugardalsvellinum í gærkvöldi þar sem England vann Ísland 3:0 í undankeppni EM.

„Það eina sem hefði mátt betur fara hjá okkur var þessi tuttugu mínútna kafli fyrir leikhlé. Þá fannst mér við verða fullhrokafullir og töpuðum áttum að vissu leyti. Þá vildum við skyndilega ekki vinna skylduverkin á vellinum og kannski var það vegna þess að við vorum tveimur mörkum yfir. Við ræddum um þessi atriði í leikhléi og í upphafi síðari hálfleiks fannst mér við spila eins og við eigum að gera. Mínir leikmenn náðu þá að hámarka getu sína í stað þess að halda aftur af sér. Niðurstaðan varð sú að við unnum með þriggja marka mun á útivelli og héldum hreinu. Ég er því virkilega ánægður og frammistaða liðsins var afar góð. Eini mínusinn við þennan leik er sú staðreynd að við urðum fyrir meiðslum og við þurfum að skoða þá stöðu sem upp er komin í kvöld,“ sagði Pearce við blaðamenn að leiknum loknum í Laugardalnum í gærkvöldi. Pearce var sjálfur vinstri bakvörður í enska landsliðinu um nokkurra ára skeið og þekkt hörkutól. Leikmenn hans virðast ekki vera eins harðir af sér en tveir þeirra voru bornir á sjúkrabörum af leikvelli en rétt er að taka fram að leikur íslenska liðsins var alls ekki grófur. Nathan Delfouneso meiddist í fyrri hálfleik og varamaður hans, Martyn Waghorn, meiddist í þeim síðari.

Pearce taldi að hitastigið gæti hafa spilað inn í en honum fannst vera orðið kalt í Reykjavík þegar kvölda tók. „Báðir meiddust aftan í læri en ég veit ekki hver orsökin var. Hugsanlega hefur hitastigið eitthvað með þetta að gera en við höfum ekki spilað í svona köldu loftslagi að undanförnu og hitinn féll hratt þegar á leið leikinn.“ kris@mbl.is