Umferð Einkabílar áberandi en nú á að auka hlutdeild almenningssamgangna.
Umferð Einkabílar áberandi en nú á að auka hlutdeild almenningssamgangna. — Morgunblaðið /Kristinn
Ríkið og sveitarfélögin semja áætlun um samgöngumál til tíu ára

Undirrituð var á dögunum viljayfirlýsing fulltrúa innanríkis- og fjármálaráðuneyta, Vegagerðar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samning um tíu ára tilraunaverkefni á sviði almenningssamgangna. Samið verður um uppbyggingu og rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu jafnhliða því sem umfangsmiklar vegaframkvæmdir verða settar á ís. Þá er litið til samgangna sem tengja höfuðborgarsvæðið við nágrannasveitarfélögin á sama atvinnusvæði. Viljayfirlýsing þessi verði hluti af samgönguáætlun 2011-2022 sem stefnt er að því að leggja fyrir Alþingi nú í haust.

Við vinnslu sjálfbærrar samgönguáætlunar er gengið út frá því að ríkið skuldbindi sig til að setja peninga í rekstur almenningssamgangna á svæðinu næstu tíu árin gegn mótframlagi sveitarfélaga. Framlag ríkisins komi af kolefnisgjaldi sem ríkið innheimtir af jarðefnaeldsneyti og verður um einn milljarður kr. á ári. Meginmarkmiðið verði að minnsta kosti að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum á höfuðborgarsvæðinu. sbs@mbl.is