Traustir Volvo S60 hefur fengið góða dóma. Eiga bílar þessarar gerðar trausta bakhjala sem vilja Volvo og ekkert annað.
Traustir Volvo S60 hefur fengið góða dóma. Eiga bílar þessarar gerðar trausta bakhjala sem vilja Volvo og ekkert annað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Volvo hjá Brimborg eingöngu með dísilvélum. Meiri bílasala. Óhagkvæmt ef flotinn eldist mikið. Eigandi Volvo er skynsamur og hugsar um öryggi

Sala á fólksbílum hefur aukist verulega að undanförnu og flestir kaupendur vilja dísilbíla. Nú er svo komið að við bjóðum eingöngu dísilbíla frá Volvo, enda eru allar tegundir bíla frá fyrirtækinu framleiddar með dísilvélum,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, umboðsfyrirtækis Volvo á Íslandi. Hann segir að XC60-jeppinn njóti mestra vinsælda.

Fellur í kramið

„Allir jepparnir sem við fáum seljast strax, enda er þetta nýjasta hönnunin frá Volvo og fellur greinilega vel í kramið hjá landanum,“ segir Egill. Verðið er líka hagstætt, miðað við jeppa í milliflokki og vélin er öflug en líka sparneytin. Hönnunin er eins og best gerist og allur öryggisbúnaður er í sérflokki. Í þessum bílum er öryggiskerfið City Satety, sem við höfum útlagt á íslensku sem borgaröryggi. Kerfið er í raun sjálfvirk bremsa, sem ætlað er að koma í veg fyrir aftanákeyrslur í borgarumferðinni. Við fullyrðum aðXC60 sé öruggasti bíllinn sem Volvo hefur framleitt og þá er nú mikið sagt, enda hefur Volvo alltaf lagt mikla áherslu á öryggisatriði.“

Landið er að rísa

Volvo er sannarlega stöðutákn, segir Egill. „Eigandi Volvo er skynsamur, hugsar um öryggi og umhverfismál. Volvo er eini bílaframleiðandinn í heiminum sem er með allt framleiðsluferlið sérstaklega umhverfisvottað svo dæmi sé tekið. Þannig að ég segi hiklaust að Volvo sé stöðutákn.“

Egill segir ekki ólíklegt að sala á nýjum bílum aukist á þessu ári um 50%.

„Ég reikna síðan með því að á næsta ári aukist salan um 60% miðað við þetta ár, þannig að landið er að rísa. Bílafloti landsmanna hefur elst talsvert og því er nauðsynlegt að salan aukist. Það er ekki gott ef flotinn verður of gamall, það getur varla talist þjóðhagslega hagkvæmt.“

karlesp@simnet.is