Aðalsmaður vikunnar, Grímur Atlason, er framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves sem haldin verður 12.-16. október.
Geturðu lýst þér í fimm orðum?

Í höfuðborgarsoranum þar á sína ætt og óðul þessi ónytjungur.

Hvað mun standa upp úr á Airwaves?

170 íslenskar hljómsveitir. En auðvitað eru þarna frábærar erlendar líka. Ég er spenntastur fyrir Secret Chiefs 3, Random Recipe og tUnE-yArDs.

En hvað er Airwaves?

Gleði í Reykjavík sem snýst um tónlist. Enginn eldhúsdagur eða almenn leiðindi.

Hver er besti bassaleikari sögunnar?

Pálmi var nú alltaf sleipur – sló þó feilnótu á Fram og aftur blindgötuna. En ætli Jaco hafi ekki verið sá besti – en ég var alltaf skotnastur í Þorleifi Guðjónssyni og Paul.

Eftirminnileg tónlistarhátíð sem þú hefur farið á í útlöndum?

Jakajazz í Jakarta og auðvitað G-Festival í Færeyjum.

Reykjavík, Bolungarvík eða Búðardalur?

Skatan í Bolungarvík og Traðarhyrna – Hvannalambið í Ytri-Fagradal og Kjaftæði á Erpsstöðum og síðan Valur og Vesturvallagatan.

Kanntu að spila á trommur?

Ég kann tittislatta en var líklega aðeins betri í den þegar ég spilaði í Þokunni.

Besta plata sem þú hefur heyrt?

Þetta sveiflast til og frá. Ég breyttist daginn sem ég heyrði Please Please með Bítlunum. Ég var 4 ára og ég hélt að Bítlarnir væru flamenco-stúlkur í kjólum. Platan hafði farið í vitlaust hulstur í síðasta partíi. Komst að hinu sanna ca. ári síðar. Ætli uppáhaldsplatan akkúrat núna sé ekki Before Hollywood með The Go-Betweens.

En sú versta?

Það eru margar vondar hljómplötur á markaðnum. Ég reyni að forðast þær en ég verð að játa að Dejlige Minder með Jodle Birge kemst ansi nálægt því að vera leiðinlegasta plata sem ég hef heyrt og síðan þykja mér reyndar allar plötur Oasis óendanlega leiðinlegar og ofmetnar með afbrigðum.

Geturðu lýst dansstíl þínum á djamminu?

Hann er nokkuð óhefðbundinn. Hliðarsaman sundur with a twist.

Hvað færðu ekki staðist?

New York og Raufarhöfn.

Áttu þér leyndan hæfileika og ef svo er þá hvern?

Ég hugsa að ég klappi hærra en flestir. Og síðan borða ég hraðast allra kókosbollur og kók.

Ef þér hefði staðið til boða að syngja við brúðkaup Vilhjálms og Katrínar, hvaða lög hefðir þú sungið og af hverju?

„Ástfangi“ með Bless og „Is Jesus your Pal“ með Slowblow. Ég myndi reyndar fá Dr. Gunna til að söbba mig í „Ástfanganum“ og Orra Jónsson til að taka „Jesus“. Þetta eru lögin sem sungin voru í brúðkaupinu mínu og það var frábært. Maður á alltaf að óska öllum alls hins besta – líka þeim sem eiga það ekki skilið. Og það er skelfilegt að gifta sig undir Elton John eða Oasis.

Hvað fær þig til að skella upp úr?

Megas og Þórbergur Þórðarson. Reyndar þykja mér leiðarar Morgunblaðsins oft svo fjarstæðukenndir að ég skelli upp úr eins og einni roku.

Hvað kanntu síst að meta í eigin fari?

Dómhörkuna og skapið.

En best að meta?

Skapið og ómótstæðilegan líkama minn.

Chaplin, Buster Keaton eða Harold Lloyd?

Chaplin by far. Gullæðið og Einræðisherrann eru stórkostlegar bíómyndir.

Hvað er það fyndnasta sem þú hefur upplifað?

Ormurinn og Dr. Gunni. Það verður ekki opinberað frekar fyrr en eftir svona 20 ár.

Hvers viltu spyrja næsta aðalsmann?

Hefurðu einhvern tímann vaknað á Raufarhöfn í miðjum júlí í blankalogni og horft út á hafið?