Unnur Haraldsdóttir fæddist á Svalbarðseyri 26. september 1923. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Sóltúni 27. september 2011.

Foreldrar hennar voru hjónin Haraldur Gunnlaugsson og Guðný Jónsdóttir. Guðný átti fyrir Unni og Ástu Þóru. Haraldur átti Kolbrúnu. Alsystkin Unnar eru Hörður, Þuríður, Gunnlaugur, Vilborg Ágústa, Gunnlaugur Ingi, Lórelei, Regína og Jónína Herdís. Eftirlifandi eru Vilborg Ágústa, Lórelei og Jónína Herdís.

Unnur giftist Þórði Þórðar Kristjánssyni, húsasmíðameistara, f. 18.6. 1924. Þórður átti fyrir Ómar, f. 1945, giftur Friðgerði Friðgeirsdóttur, þau eiga Atla, Gunnstein Reyni og Rebekku, en Ómar átti Sigurþór fyrir. Börn Unnar og Þórðar eru: 1. Haraldur, f. 1949, d. 1968. 2. Kristján, f. 1950, giftur Guðrúnu Guðmundu Þórarinsdóttur, þau eiga a) Guðlaugu Þóru, gift Örnólfi Þorvarðssyni, börn þeirra eru, Guðrún Sara, Þorvarður Snær og Kristján Sölvi. b) Unni Ýr, gift Bjarna Pálssyni, börn þeirra eru Kristján Frosti, Álfheiður og Páll Theodór. c) Þórð Örn, giftur Völu Gísladóttur, börn þeirra eru Fróði og Óðinn. d) Þórarin Má. 3. Helga, f. 1953, gift Kristjáni Guðmundssyni, barn þeirra er a) Alexander Pétur. Fyrir átti Helga b) Harald Hannes, en dóttir hans er Ylfa Marin. c) Unnar. Fyrir átti Kristján d) Kristínu Erlu, sambýlismaður Þórður Halldórsson, þau eiga Kolbrá Jöru. e) Elísabetu Dröfn. 4. Unnur, f. 1956, gift Valdimar Erlingssyni, þau eiga a) Erlu Hrönn, gift Morten Nörgaard, þau eiga Magna, Frey og Þór. b) Erling, giftur Bertu Kristínu Óskarsdóttur, þau eiga Valdimar, Margréti Ösp og Þórunni Emilíu. c) Þórunni, sambýlismaður Kristinn Loftur Einarsson, þau eiga Baldur Frey. 5. Þórður Már, f. 1964, d. 1990. Sambýliskona hans var Arndís Sævarsdóttir, börn þeirra eru a) Ruth Þórðar, b) Þórður Atli.

Unnur verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 7. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Nú er hún mamma okkar dáin, daginn eftir afmælisdaginn sinn, en hún varð 88 ára hinn 26. september sl. Margs er að minnast.

Mamma er í minningunni falleg, vel klædd og kvenleg kona. Allt í umhverfi mömmu varð fallegt, hún hafði mikla sköpunarhæfileika hvort sem um var að ræða að fegra heimilið, sauma á okkur föt eða prjóna. Og nú í seinni tíð prýða stóru olíumálverkin hennar veggi heimila okkar.

Eins og þeir sem þekkja fjölskylduna vita var líf mömmu og pabba ekki alltaf dans á rósum. Við vorum fimm börnin hennar, Haraldur, Kristján, Helga, Unnur og Þórður Már. Þetta var stór og fjörugur hópur og allir höfðu sínar sérþarfir, sem hún sinnti af mikilli natni og óeigingirni.

Haraldur fékk lömunarveikina sjö ára gamall og þurfti mikla umönnun og var bundinn hjólastól eftir það. Hann lifði fram á 19. aldursár og það var mikil sorg sem við öll þurftum að takast á við þegar hann dó. Mamma hafði leynt og ljóst barist fyrir því alla tíð að Haraldur fengi að ganga í skóla eins og önnur börn, en það þótti ekki sjálfsagt á þeim tíma að fatlaðir nytu sömu réttinda og aðrir og enga opinbera aðstoð var að fá. Haraldur kláraði tvo bekki í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en hann ætlaði sér í langskólanám.

Mamma hafði mikinn metnað fyrir hönd okkar krakkanna og lagði mikla áherslu á að við stæðum okkur vel í skólanum, hún vildi að við gengjum menntaveginn, eins og pabbi líka. Hún sat ófáar stundir með okkur við eldhúsborðið og hlýddi okkur yfir landafræði, sögu og las stíla, á meðan kakan í ofninum var að bakast.

12. maí 1990 dundi annað stóráfall á fjölskyldunni. Þórður Már, yngsti bróðir okkar, fórst þá af slysförum 26 ára gamall. Þórður lét eftir sig sambýliskonu og dóttur, eins og hálfs árs, og son sem fæddist tveimur mánuðum síðar.

Þetta áfall hafði mikil áhrif á okkur öll og urðum við aldrei söm. Við þessar aðstæður var það samstaðan og samkenndin innan fjölskyldunnar sem skipti sköpum, þótt ekki væri mikið talað um atburðinn sjálfan eða tilfinningarnar.

Við fjölskyldan áttum áfram ánægjulega og skemmtilega tíma saman og gátum samglaðst yfir sigrum hvert annars.

Tveimur árum eftir andlát Haraldar, eða 1970, fæddist fyrsta barnabarn mömmu, Haraldur Hannes. Hann naut uppeldis mömmu og pabba að hluta fram á unglingsár en ástar þeirra alla tíð. Þau fæðast síðan eitt af öðru barnabörnin og eru nú 16 auk stjúpbarnabarna og alls eru afkomendurnir 51.

Það er svo ótalmargt sem við systurnar höfum rifjað upp við þessi skrif og ekki hægt að skrifa um það allt, en eitt fáum við oft að heyra frá vinkonum og vinum: „Alltaf vorum við velkomin heim til ykkar.“

Guð veri með ykkur öllum.

Helga og Unnur.

Unnur tengdamamma mín hefur kvatt þennan heim, 88 ára gömul. Hún dvaldi 2 síðustu æviár sín á hjúkrunarheimilinu í Sóltúni þar sem hún naut góðrar umönnunar starfsmanna en ekki síst eiginmanns síns til 62ja ára, Þórðar, sem heimsótti hana nær daglega.

Unnur var mikil fjölskyldukona með stóran faðm sem rúmaði alla. Ég kom í fjölskylduna ung að árum og var mér vel tekið frá fyrsta degi. Betri tengdaforeldra en Unni og Þórð er vart hægt að hugsa sér. Unnur var vel gefin, fróðleiksfús og víðlesin, fannst mikilsvert að allir fengju menntun og studdi sína stórfjölskyldu einhuga í þeim efnum. Hún var alla tíð mikil smekk- og listakona og bar heimilið, og hún sjálf, alltaf vott um slíkt. Unnur fékkst alla tíð eitthvað við teikningu og listmálun. Á þeim árum, þegar börnin fimm voru ung og mikið að gera heima fyrir, var ekki forsvaranlegt að eyða tíma í málun listaverka en þá veitti hún listsköpuninni útrás í gerð nytjahluta, sem voru heklaðir, prjónaðir eða saumaðir. Á seinni árum, er um fór að hægjast, gaf Unnur sig alfarið að listinni og fór að mála olíumálverk sem prýða í dag mörg heimili og aðrar vistarverur samfélagsins.

Eftir að börnin voru uppkomin fóru hjónin að leggja land undir fót og fóru þá gjarnan til útlanda. Ferðirnar voru oft með menningarlegu ívafi, skoðaðir sögufrægir staðir og listaverk en einnig fjölskylduferðir þar sem farið var að heimsækja börnin sem bjuggu erlendis. Oft komu þau að heimsækja okkur Kristján þau ár sem við bjuggum í Danmörku og voru það ætíð miklar gleðistundir.

Með þessum fáu orðum vil ég þakka Unni samferðina og allt það sem hún hefur gefið mér og öðrum samferðarmönnum sínum, hennar er sárt saknað.

Guðrún Þórarinsdóttir.

Hún Unnur tengdamóðir mín kvaddi þessa jarðvist, daginn eftir 88 ára afmælisdag sinn hinn 27. september. Erfið veikindi voru búin að taka sinn toll.

Þrátt fyrir áföllin í lífinu var alltaf stutt í hárbeittan húmorinn sem bar svo vel með sér hina miklu greind Unnar. Hún var afskaplega næm á lífið og umhverfi sitt og ef orðið fagurkeri á við um einhvern er það Unnur. Íslenskt mál vafðist aldrei fyrir Unni og hún kunni þá list manna og kvenna best að svara fyrir sig. Alveg fram undir það síðasta. Á efri árum málaði hún af kappi, engar póstkortamyndir – heldur alvörumálverk, stór og litrík með afbrigðum. Veggi afkomenda skreyta nú fagrar minningar um listakonuna Unni.

Góðu minningarnar eru margar og nú verða þær vel varðveittar af fjölda ástvina um ókomin ár. Hún gaf okkur öllum mikið. Hún kenndi mér æðruleysi gagnvart lífinu. Að kunna að þakka fyrir það sem manni hefur verið gefið. Þá leið fundu þau Unnur og Þórður tengdaforeldrar mínir, að ég held, í sameiningu. Unnur hefur alltaf verið mjög meðvituð um ríkidæmi sitt í afkomendum talið, enda sýndi hún það ekki bara í orði, heldur líka í verki. Það fór fátt framhjá henni Unni í því sem afkomendur tóku sér fyrir hendur.

Á kveðjustund þakka ég fyrir samveruna, myndirnar og allar góðu og skemmtilegu samræðustundirnar. Og svo miklu meira en það.

Guð blessi minningu Unnar.

Kristján Guðmundsson.

Nú er amma okkar fallin frá, farin í sína hinstu ferð. Hún hafði einstaklega gaman af því að ferðast og í minningunni voru þau afi mikið á faraldsfæti. Þau heimsóttu okkur systur oft þegar við bjuggum í Danmörku með foreldrum okkar og síðar til Svíþjóðar og Skotlands þar sem við bjuggum með okkar fjölskyldum. Það var alltaf mikil gleði og tilhlökkun á heimilinu þegar amma og afi komu í heimsókn enda átti amma auðvelt með að sýna ást sína og væntumþykju og var gjafmild með eindæmum.

Amma var mikil listakona og hafði unun af fallegum hlutum og mikla ánægju af því að gera fallegt í kringum sig. Við systur höfum notið góðs af því í gegnum tíðina, þegar við vorum yngri bæði prjónaði hún og saumaði á okkur og önnur barnabörn sín og í seinni tíð gerði hún stórkostleg listaverk sem nú prýða veggi fjölmargra fjölskyldumeðlima. Amma hafði alltaf mikinn áhuga á list og teiknaði sér til skemmtunar en það var ekki fyrr en á efri árum og hægjast fór um að hún gaf sér tíma til að fara í listnám. Hún var afkastamikill listamaður og alltaf var spennandi að koma í Ofanleitið og sjá nýjasta listaverkið á trönunum.

Amma var dama fram í fingurgóma og ávallt hugguleg til fara. Hún sló ekkert af hvað það varðaði þó að hún væri komin á hjúkrunarheimili og stýrði af röggsemi að hún væri ávallt vel naglalökkuð þó að hún hefði ekki lengur burði til að lakka sig sjálf. Ein seinustu orð ömmu í þessu lífi voru til dætranna tveggja þar sem þær voru að kyssa móður sína sem þá var rúmliggjandi á hjúkrunarheimilinu: „Mikið er þetta góður ilmur.“

Amma var falleg og lífsglöð alla tíð og þau afi kunnu að njóta hversdagsleikans með súkkulaðimola og kaffibolla eða rauðsvínsglasi eftir atvikum. Það er aðdáunarverður eiginleiki og til eftirbreytni að geta séð gleðina í hinu smáa.

Elsku amma, við kveðjum þig og þökkum þér fyrir allt sem þú hefur gefið okkur.

Guðlaug Þóra og Unnur Ýr.

HINSTA KVEÐJA
Elsku amma mín.
Ég vildi að þú værir til með mér. Ég veit að á endanum kem ég til þín. Svona er lífið amma mín, þú verður alltaf til í hjarta mér.
Diljá Björk
Atladóttir.