Fiesta Sparneytnasti bíll Evrópu sem ekki er með tvinntækni. Nýjar gerðir Fiesta og Focus koma til landsins eftir áramót.
Fiesta Sparneytnasti bíll Evrópu sem ekki er með tvinntækni. Nýjar gerðir Fiesta og Focus koma til landsins eftir áramót.
Ford breytir framleiðslunni. Fiesta er kóngurinn; sparneytinn og mengar sáralítið. Ekkert af akstursgleðinni ætti að tapast því bíllinn hefur kraft.

Það er líklega langt síðan Ford bjó yfir eins sterkri vörulínu og nú. Forstjórinn Alan Mulally tók þá stefnu fyrir nokkrum árum að fækka tegundum verulega en vanda þeim mun betur til þróunar þeirra. Ford hefur endurnýjað nánast alla framleiðslu sína og býr núna yfir nútímalega hönnuðum, vel útbúnum og sparneytnum bílum sem uppfylla kröfur um góða aksturseiginleika.

Kóngurinn kynntur

Kóngurinn, hvað þessa eiginleika varðar, hlýtur að vera hinn nýi Ford Fiesta ECOnetic sem kynntur var fyrir örfáum dögum á bílasýningunni í Frankfurt en sá bíll losar aðeins 87 g/km af CO2 og notar eingöngu 3,3 lítra á hundraðið. Með slíkar tölur er Ford Fiesta hagkvæmasti bíll í Evrópu sem býðst án notkunar tvinntækni.

Að fara 30 kílómetra á einum lítra af eldsneyti í blönduðum akstri er raunveruleiki með Ford Fiesta ECOnetic. ECOnetic tækni Ford notast við start/stop búnað, síu fyrir köfnunarefnisoxíð, sótagnasíu, nýtt innsprautunarkerfi, drifrás og nokkrar vel valdar breytingar á vél sem skila þessum góða árangri. Ekkert af akstursgleðinni ætti að tapast því Ford Fiesta skilar þrátt fyrir þetta 95 hestöflum.

Einnig í Ford Focus

Ford kynnti einnig til sögunnar afar sparneytinn Ford Focus ECOnetic sem getur dregið úr eigin loftmótstöðu á ferð. Ford Focus ECOnetic býr yfir sérsmíðuðum gírkassa sem dregur úr viðnámi og sparar þannig orku. Með ECOnetic vélinni ræður Ford Focus yfir 105 hestöflum og miklu togi.

Með því að nýta hefðbundna tækni næst mikið rekstraröryggi án þess að fórna hagkvæmni á nokkurn hátt. ECOnetic útgáfurnar af Ford Fiesta og Ford Focus eru ekki komnar til Brimborgar en vonir standa til að fyrstu bílarnir komi fljótlega eftir áramót.

finnurorri@gmail.com