Við borgum ekki Er ekki svolítið skrítið að skattgreiðendur á Íslandi kosti réttarhöld yfir manni sem reyndi að hjálpa þjóðinni? Geir Haarde reyndi það án efa. Hann var forsætisráðherra þegar bankarnir tútnuðu út og fjárfestar gerðu sér glaðan dag.

Við borgum ekki

Er ekki svolítið skrítið að skattgreiðendur á Íslandi kosti réttarhöld yfir manni sem reyndi að hjálpa þjóðinni? Geir Haarde reyndi það án efa. Hann var forsætisráðherra þegar bankarnir tútnuðu út og fjárfestar gerðu sér glaðan dag. Margt fólk þurfti þá að hafa ýtrustu útsjónarsemi til að komast af. Síðan hefur enn fleira fólk lent í miklum erfiðleikum. Það er ansi hreint óréttlátt. En ætli þetta sé bara einum bjartsýnum manni að kenna? Hvort var það Geir eða Ólafur Ragnar sem mælti með auknum umsvifum á Íslandi? Hvernig voru aðstæður á fjármálamörkuðum heimsins? Hvaða skattgreiðandi vill láta taka peningana sína í réttarhöld sem snúast um slíka vitleysu? Og hvar eru hinir frábæru fjárfestar eða umsvifamenn? Sérstakur saksóknari fær skammir fyrir seinagang, en hjá honum er líkast til verið að vinna þjóðþrifaverk. Það virðist einfaldlega einkennilegt að taka einn mann fyrir alla. Mann sem vildi og vill áfram vel.

Lesandi.

Hættur af öspum

Mig langar að benda á stórhættu við Víkingsheimilið í Fossvoginum, vegna aspartrjáa sem plantað hefur verið alltof þétt og við ljósastaurana þannig að þeir eru á kafi inni í öspunum. Gatan verður svo dimm fyrir bragðið og stórhættuleg. Þarna er mikil umferð af gangandi, hjólandi og hlaupandi börnum sem fullorðnum sem eru að fara inn á göngustíginn út Fossvoginn. Svo er Víkingsheimilið með upplýstan gervigrasvöll þannig að það er mikil bílaumferð á kvöldin. Ég benti garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar á þessa hættu fyrir ári en hann grobbaði sig bara af því að hann væri búinn að vera garðyrkjustjóri í 12 ár og hefði plantað hundruðum aspa á hverju ári víðsvegar um borgina. Sem auðvitað er ekki gáfulegt, þar sem aspir eru til vandræða um alla borg. Þarna verður auðvitað að taka upp þessi tré og planta minni trjám eða alls ekki neinum þar sem gatan er svo þröng. Víða á Norðurlöndunum er bannað að planta öspum inni í borgarhverfum. Aspir eru fín tré sem skjólveggir á opnum svæðum en ekki í þröngum götum.

Í von um skjóta lausn áður en slys verða þarna, því enginn vill hafa þau á samviskunni.

Íbúi í Fossvoginum.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12
velvakandi@mbl.is