Úr leik Elín Metta Jensen, leikmaður Vals, hefur hér betur í baráttunni gegn leikmanni Glasgow City. Skotarnir höfðu hins vegar betur og fögnuðu sigri.
Úr leik Elín Metta Jensen, leikmaður Vals, hefur hér betur í baráttunni gegn leikmanni Glasgow City. Skotarnir höfðu hins vegar betur og fögnuðu sigri. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Valur leikur ekki í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu næstu tvö árin eða svo, hið minnsta, eftir að liðið tapaði 3:0 á heimavelli fyrir skoska liðinu Glasgow City í gær.

Á Hlíðarenda

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Valur leikur ekki í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu næstu tvö árin eða svo, hið minnsta, eftir að liðið tapaði 3:0 á heimavelli fyrir skoska liðinu Glasgow City í gær. Fyrri leikur liðanna fór 1:1 og Valur tapaði því 4:1 samtals í þessu einvígi í 32-liða úrslitum. Þar með fór í súginn möguleiki bikarmeistaranna á að hefna fyrir Þór/KA því Glasgow mætir þýska liðinu Potsdam, sem sló norðankonur út, í 16-liða úrslitum.

Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfari Vals var með ákveðna uppskrift að sigri í huga þegar hann stillti upp byrjunarliði í gær. Gegn framliggjandi vörn gestanna átti að beita stungusendingum með hina 16 ára Elíni Mettu Jensen í fremstu víglínu og þær Hólmfríði Magnúsdóttur og Rakel Logadóttur á köntunum. Allar búa þær sennilega yfir meiri hraða en Kristín Ýr Bjarnadóttir, markadrottning Vals síðustu ár, sem var óvænt á bekknum. Með snillinga eins og Laufeyju Ólafsdóttur og fleiri á miðjunni var vel hægt að vonast til að þessi uppskrift myndi virka og vissulega sköpuðust færi, meira að segja dauðafæri, en inn vildi boltinn ekki. Einhver hráefni vantaði og þar má nefna skelfilega frammistöðu Hólmfríðar og Rakelar sem og Meagan McCray markvarðar, auk þess sem Elín Metta réð illa við sitt verkefni að þessu sinni.

Það bætti heldur ekki úr skák að Skotarnir skyldu komast yfir með slysalegu sjálfsmarki snemma leiks. Þar með gátu þær skosku nýtt sína styrkleika vel en þær héldu boltanum vel og voru óhræddar við að spila honum á milli sín í öftustu línu og tókst vel til með það. Nokkuð sem ég hefði frekar búist við af spænsku liði en skosku, en hvað um það.

Ein skyndisókn eftir klukkutíma leik kom Glasgow í 2:0 og þar með hefðu Valskonur þurft að skora þrjú mörk til að komast áfram. Á meðan þær jöfnuðu sig á því bættu gestirnir við þriðja markinu og gerðu út um leikinn. Valur verður því að gera sér að góðu að spila alfarið hérlendis næsta sumar eftir að hafa misst Íslandsmeistaratitilinn í hendur Stjörnunnar. Í ár fengu tvö íslensk lið keppnisrétt í Meistaradeildinni en Ísland hefur nú misst annað þessara sæta og því mun aðeins Stjarnan leika í Evrópu að ári.

Fáir leikmenn Vals hafa lagst á koddann í gærkvöldi ánægðir með sinn leik. Þeim sem þetta skrifar fannst einna helst að Hildur Antonsdóttir stæði sig vel á miðjunni og fyrrnefnd Laufey var einnig ágæt.

Valur – Glasgow City FC 0:3

Vodafonevöllur, síðari leikur í 32-liða úrslitum Meistaradeildar UEFA, fimmtudag 6. október 2011.

Skilyrði : Léttskýjað og nánast logn. Völlurinn ágætur.

Skot : Valur 9 (3) – Glasgow City 12 (8).

Horn : Valur 4 – Glasgow City 2.

Lið Vals : (4-3-3) Mark : Meagan McCray. Vörn : Embla Grétarsdóttir, Mist Edvardsdóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja : Hildur Antonsdóttir, Laufey Ólafsdóttir, Caitlin Miskel (Katrín Gylfadóttir 80.). Sókn : Rakel Logadóttir, Elín Metta Jensen (Kristín Ýr Bjarnadóttir 59.), Hólmfríður Magnúsdóttir (Björk Gunnarsdóttir 65.).

Lið Glasgow City : (4-3-3) Mark : Claire Johnstone. Vörn : Emma Fernon, Danica Dalziel, Eilis McSorley, Emma Mitchell. Miðja : Clare Gemmell (Jill Paterson 90.), Leanne Ross, Joanne Love (Emma Woolley 82.). Sókn : Jane Ross, Christie Murray (Katharina Lindner 75.), Lisa Evans.

Dómari : Gyöngyi Krisztina Gaál frá Ungverjalandi.

Áhorfendur : 245.

Þetta gerðist á Hlíðarenda

FÆRI 5. Jane Ross átti stungusendingu í gegnum miðja vörn Vals á Leanne Ross sem var alein gegn markverði Vals í dauðafæri en átti frekar slakt skot sem Meagan McCray varði.

0:1 10. Vinstri bakvörðurinn Emma Mitchell átti hættulega fyrirgjöf sem fór yfir Meagan markvörð og að fjærstönginni þar sem Hallbera Guðný Gísladóttir varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark.

FÆRI 25. Laufey og Elín Metta léku vel á milli sín og Laufey slapp ein gegn markverði en potaði boltanum rétt framhjá markinu úr frábæru færi. Mjög vel gert að öðru leyti.

SLÁ 45. Jane Ross átti gott skot utan af velli sem fór í boga yfir McCray í þverslána og út.

0:2 60. Jane Ross átti fyrirgjöf frá hægri sem fór yfir Meagan í markinu og alveg til Lisu Evans sem var á fjærstöng og skoraði auðveldlega.

0:3 62. Lisa Evans fékk stungusendingu fram vinstri kantinn og komst ein gegn McCray sem átti undarlegt úthlaup. Evans skoraði auðveldlega í hægra markhornið.

FÆRI 90. Jane Ross fékk sendingu inn í teiginn og var í dauðafæri en Embla renndi sér fyrir skot hennar á síðustu stundu.

Gul spjöld:

Mist (Val) 48. (brot), Dalziel (Glasgow City) 58. (töf), Hólmfríður (Val) 64. (brot), Fernon (Glasgow City) 70.

Rauð spjöld:

Engin.

*Tveir sextán ára leikmenn voru í byrjunarliði Vals í gær, þær Elín Metta Jensen framherji og Hildur Antonsdóttir miðjumaður.

*Valskonur gátu ekki nýtt krafta Dagnýjar Brynjarsdóttur og Thelmu Bjarkar Einarsdóttur sem héldu til háskólanáms í Bandaríkjunum í byrjun ágúst. Þær geta gefið kost á sér í landsliðsverkefni en að sögn Gunnars Rafns Borgþórssonar þjálfara hefur skólinn forgang að öðru leyti og því kom ekki til greina að kalla þær heim í Evrópuleikina gegn Glasgow City.

*Fyrirliði skoska liðsins, Rachel Corsie , var ekki með liðinu í gær en hún komst ekki til Íslands vegna anna í prófum. Leanne Ross var því með fyrirliðabandið. Skoska liðið er áhugamannalið líkt og hið íslenska og ekki óvant því að leikmenn vanti í útileiki í Evrópukeppni, ólíkt því sem íslensk áhugamannalið eiga að venjast.

*Glasgow City er með gríðarlega yfirburði í skosku úrvalsdeildinni en þar er liðið með fullt hús stiga eftir 17 umferðir og markatöluna 125:4! Í liðinu eru nokkrir skoskir landsliðsmenn og þar á meðal má nefna Joanne Love , Emmu Fernon og Leanne Ross sem allar munu vera fastamenn í byrjunarliði Skotlands. Þá er hin 19 ára gamla Lisa Evans , sem skoraði tvívegis fyrir Glasgow í gær, farinn að banka á A-landsliðsdyrnar.

* Claire Johnstone markvörður Glasgow varði mark ÍBV árið 2004 og varð þá bikarmeistari með Eyjakonum.

Á mbl.is er að finna myndskeið með viðtölum við Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfara Vals og Málfríði Ernu Sigurðardóttur fyrirliða.