Tríó Peter Máté píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Sigurður Ingvi Snorrason klarínettuleikari leika verk eftir Pál Pampichler Pálsson, Milhaud, Liszt, Poulenc og Bartók á tónleikum sínum á sunnudag.
Tríó Peter Máté píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Sigurður Ingvi Snorrason klarínettuleikari leika verk eftir Pál Pampichler Pálsson, Milhaud, Liszt, Poulenc og Bartók á tónleikum sínum á sunnudag. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Það er alltaf mjög gaman og mikill heiður að fá að spila með Tríói Reykjavíkur,“ segir Sigurður Ingvi Snorrason klarínettuleikari, en hann er sérstakur gestur á tónleikum Tríós Reykjavíkur í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, sunnudaginn 9. október kl. 20.00. Á tónleikunum koma auk Sigurðar fram þau Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Peter Máté píanóleikari, sem bæði eru meðlimir Tríós Reykjavíkur.

Spurður um efnisskrá tónleikanna segir Sigurður aðallega um að ræða blöndu af frönskum og ungverskum verkum. „Síðan þótti mér við hæfi að bæta við verki Páls Pampichlers Pálssonar, Næturljóð nr. 3, frá árinu 1999 sem er tileinkað mér,“ segir Sigurður. Á tónleikunum má heyra leikandi létt tríó eftir Darius Milhaud og nokkur smáverk eftir Franz Liszt sem flutt eru í tilefni tveggja alda afmælis hans nú í október.

„Tvö verkanna á tónleikunum, annars vegar klarínettusónata eftir Francis Poulenc og hins vegar Andstæður eftir Béla Bartók, eiga það sameiginlegt að hafa verið pöntuð af klarínettusnillingnum og sveiflukónginum Benny Goodman,“ segir Sigurður og bendir á að Goodman hafi á sínum tíma ætlað að frumflytja bæði verkin með tónskáldunum. Það hafðist í tilfelli Bartóks, en Poulenc lést áður en það náðist og því var það Leonard Bernstein sem sat við flygilinn.

Vítt tónsvið hljóðfærisins eykur túlkunarmöguleikana

„Við klarínettuleikarar eigum Goodman mikið að þakka því hann var afar duglegur að panta verk og mörg fræg tónskáld tuttugustu aldarinnar skrifuðu fyrir hann,“ segir Sigurður og nefnir í því sambandi t.d. Paul Hindemith og Aaron Copland.

Aðspurður segir Sigurður úr nógu að moða þegar kemur að því að velja góð klassísk klarínettuverk til flutnings. „Vissulega er klarínettan ungt hljóðfæri, sem þýðir að við eigum ekki verk frá barokktímanum. Fyrsta klarínettan verður til um 1730 og upp úr því fara tónskáld á borð við Mozart og Brahms að semja fyrir hljóðfærið. Á tuttugustu öldinni er óhemjumikið skrifað fyrir hljóðfærið,“ segir Sigurður. Tekur hann fram að eitt af því sem sé svo heillandi við klarínettuna sé hversu vítt tónsvið hljóðfærið hafi sem gefi því aukna möguleika í túlkun.

Sigurður stundaði nám í klarínettuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Hann hefur starfað í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 1973. Hann stjórnar eigin salonhljómsveit og er virkur sem einleikari og kammermúsíkant. Þá stjórnaði hann uppbyggingu Tónlistarskóla FÍH og var skólastjóri skólans fyrstu 8 árin. Sigurður kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík.

KAMMERLISTAHÓPUR HAFNARBORGAR Í RÚMA TVO ÁRATUGI

Hljómburðurinn einstakur og samstarfið afar farsælt

Tónleikar Tríós Reykjavíkur á sunnudag marka 22. starfsár hópsins í samvinnu við Hafnarborg. „Á sínum tíma vorum við að leita okkur að samastað til tónleikahalds,“ rifjar Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikara upp, en hún skipar Tríó Reykjavíkur ásamt Gunnari Kvaran sellóleikara og Peter Maté píanóleikara, sem tók við af Halldóri Haraldssyni píanóleikara 1996, en Halldór spilaði með tríóinu frá stofnun 1988.

„Þá var ekki um auðugan garð að gresja þegar kom að því að finna sal á listasafni með góðum hljómburði og flygli,“ segir Guðnýju og tekur fram að Hafnarborg hafi verið nýopnað og stjórnendur þar að velta því fyrir sér að fá sér flygil. „Við fórum og töluðum við aðstandendur safnsins og héldum tónleika. Í framhaldinu varð það að samkomulagi að Tríó Reykjavíkur myndi hafa aðsetur í Hafnarborg og vera kammerlistahópur safnsins,“ segir Guðný og hrósar happi yfir því þar sem hljómburðurinn í Hafnarborg sé einstakur og samstarfið við safnið verið afar farsælt.

Frá upphafi hefur Tríó Reykjavíkur haldið ferna tónleika í Hafnarborg á hverju starfsári. „Við fáum reglulega til okkar gesti á tónleikana og bætum jafnvel við enn fleiri hljóðfærum. Við getum því leikið mjög breitt úrval af tónbókmenntunum,“ segir Guðný og tekur fram að í áranna rás hafi líka skapast hefð fyrir því hjá tríóinu að vera með tónleika undir yfirskriftinni Klassík við kertaljós auk þess sem nýárstónleikarnir séu alltaf á sínum stað í janúar við góðar undirtektir áheyrenda.