Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurð Inga Jóhannsson og Ásmund Einar Daðason: "Í frumvarpinu er lagt til að veitt verði heimild til leyfisveitinga til sölu matvæla sem ekki eru bökuð í sérstökum eftirlitsskyldum eldhúsum."

Verkefni þingsins í vetur eru sem fyrr bæði stór og smá. Mikilvægasta verkefnið er að skipta um kúrs og fara frá niðurskurði og skattahækkunum stjórnvalda og yfir í skynsamlega efnahagsstefnu með áherslu á að byggja upp atvinnu. Undir þeim formerkjum munu þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram þingmál í upphafi þings og reyna að fá stjórnvöld til að opna augun og taka skynsamlegum tillögum opnum örmum. Ástandið í samfélaginu væri betra ef Samfylkingin og VG hefðu tekið efnahagstillögum framsóknarmanna betur í febrúar 2009 m.a. um almenna lánaleiðréttingu en ekki barist gegn þeim með kjafti og klóm.

Stór mál og smá

En einnig þarf að skoða ýmis smærri mál sem við fyrstu sýn sýnast léttvæg en eru í reynd afar stór. Í sumar varð nokkurt fjölmiðlafár yfir synjun heilbrigðiseftirlits á hefðbundnum og árlegum kökubasar norður á Akureyri. Ástæðan var sú að við innleiðingu evrópsku matvælalöggjafarinnar ásamt meðfylgjandi reglugerðum féllu úr gildi séríslenskar reglur sem gerðu eftirlitsaðilum heimilt að leyfa slíka sölu, en eru bannaðar nú. Það var ekki vilji löggjafans að reglur á Íslandi væru harðari en í öðrum löndum hvað þetta varðar. Engu að síður standa menn nú frammi fyrir því að líknarfélögum, íþróttafélögum, kvenfélögum og öðrum sambærilegum félögum er bannað að afla fjár með slíkum samkomum. Það er skoðun undirritaðra að góðgerðarfélög eigi að hafa þennan sögulega og menningarlega rétt. Á það hefur verið bent að það sé félagsstarfinu afar nauðsynlegt bæði vegna fjáröflunarinnar en ekki síður vegna þeirra jákvæðu félagslegu áhrifa sem slík sjálfboðavinna hefur í fjöldahreyfingum.

Vilja heimila sölu á heimagerðum afurðum

Þessi heimatilbúni vandi er engu að síður staðreynd og þá er mikilvægt að bregðast við og bæta ágallana. Ásamt undirrituðum hafa nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins því lagt fram lagafrumvarp til breytingar á matvælalögunum. Í frumvarpinu er lagt til að veitt verði heimild til leyfisveitinga til sölu matvæla sem ekki eru bökuð í sérstökum eftirlitsskyldum eldhúsum. Til að unnt sé að veita undanþáguna verður skilyrt að framleiðslan sé vegna góðgerðarstarfsemi, til að styrkja félagastarf eða í öðrum sambærilegum tilgangi.

Dæmi um atburði væru kökubasarar og sala matvæla sem tengjast sérstökum viðburði, svo sem bæjarhátíð. Íslendingar vita af áratuga langri reynslu að lítil hætta stafar af heimabökuðum muffins, jólakökum, hjónabandsælum eða pönnukökum

Nái frumvarpið fram að ganga geta kvenfélög, skátar, íþróttafélög og aðrir hafist handa við baksturinn.

Höfundar eru þingmenn Framsóknar.