Jökull Ferðir um jöklana krefjast fyllstu aðgæslu og varúðar eins og best sést á þessari mynd af sprungnum Langjökli. Þar hafa orðið alvarleg slys en betri kort eiga að gegna fyrirbyggjandi hlutverki.
Jökull Ferðir um jöklana krefjast fyllstu aðgæslu og varúðar eins og best sést á þessari mynd af sprungnum Langjökli. Þar hafa orðið alvarleg slys en betri kort eiga að gegna fyrirbyggjandi hlutverki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sprungnir jöklar undir smásjána. Örugg ferðalög. Hægt að nálgast upplýsingar á netinu. Aðgátar er þörf. Mörg slys hafa orðið á síðustu árum.

Við erum að fást við lifandi íslenska náttúru og verðum að umgangast hana af auðmýkt. Með hlýnandi veðurfari eru meiri breytingar á jöklum landsins en áður hafa verið. Það veldur því að sýna þarf mikla aðgát þegar ekið er um jöklana,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Velji hættuminnstu leiðirnar

Í fyrra var hrundið af stað verkefni þar sem sprungusvæði á jöklum landsins eru kortlögð í þaula, með það markmið að auka öryggi. Vonast er til að kortin auðveldi fólki að velja hættuminnstu leiðirnar og forðast hættuleg sprungusvæði. Með tilliti til þessa hafa verið unnin kort af öllum jöklum landsins og eru þau aðgengileg á vefsetrinu www.savetravel.is hvar einnig má nálgast GSP-punkta af þeim leiðum sem öruggastar mega teljast. Þúsundir hafa nú aflað sér þessara korta sem bæði er hægt að prenta út á PDF-formi en einnig hlaða niður í GPS-staðsetningartæki eins og flestir jeppamenn eru með í bílum sínum.

Á sl. tíu árum hafa orðið sex banaslys á jöklum en í fjórum tilvikum lést fólk eftir að hafa fallið í sprungur eða svelgi. Eftir slys á Langjökli átti ferðahópur innan Ferðaklúbbsins 4x4 frumkvæði af því að kanna hvernig kortleggja mætti hættur, bæði þekkt hættusvæði og einnig þær slóðir þar sem sprungur leynast undir snjóþekjunni að vetrarlagi. Er afrakstur þess starfs það sem að framan greinir.

Nýjar úrfærslur nauðsyn

„Við erum búnir að kortleggja alla jökla landsins og erum nú að færa inn nýjar útfærslur af Snæfells- og Langjökli. Það er mjög nauðsynlegt að setja reglulega inn nýjar upplýsingar, sem við öflum meðal annars með gervihnattamyndum, ferilskráningum ýmiskonar og samtölum við fjallamenn,“ segir Jónas um kortin sem hafa fjóra einkennisliti. Blátt merkir svæði án sprungna og síðan eru sprungusvæðin flokkuð í grænt, gult og rautt með sama hætti og umferðarljós á gatnamótum gefa til kynna hve áhættusamt er að fara um.

„Flestir hinna stóru skriðjökla sem falla frá Vatnajökli, Hofsjökli og Langjökli, eru framhlaupsjöklar. Slíkir hlaupa fram á nokkurra áratuga fresti og verða ófærir vegna sprungna frá sporði og upp að ísaskilum í mörg ár á eftir. Þannig hafa orðið miklar breytingar á Langjökli síðustu árin og á einu hlýju sumri nam jökulbráðnun úrkomu þriggja ára,“ útskýrir Jónas og bætir við að nú sé unnið að uppfærslu kortanna eftir upplýsingum sem var aflað í sumar. Ekki standi til að mæla með mörgum leiðum á hverjum jökli, einungis þeim öruggustu hverju sinni.

Hvað varðar Langjökul hefur ferðaþjónustufólk og hjálparsveitir í Borgarfirði tekið að sér að fylgjast með Langjökli til stuðnings þessari vinnu með sama hætti og aðrir jöklar séu undir smásjánni í öryggisskyni.

sbs@mbl.is