Elín Bjarney Jónsdóttir var fædd á Galtarhrygg í Reykjafjarðarhreppi, N-Ísafjarðarsýslu, hinn 26. október 1922. Hún lést að kvöldi 28. september á Landspítala við Hringbraut.

Elín, eða Ella eins og hún var alltaf kölluð var dóttir hjónanna Guðbjargar Efemíu Steinsdóttur og Jóns Ólasonar bónda, fyrst á Bjarnastöðum og síðar Galtarhrygg. Þau hjón eignuðust 11 börn og komust 9 þeirra til fullorðinsára. Systkinin voru: Drengur andvana fæddur í júní 1911. Guðmundur Þorvaldur, f. 1. júlí 1912, d. 11. júlí 2006. Valgerður Sigurborg, f. 11. júní 1914, d. 1. febrúar 1982. Kristján Margeir, f. 22. október 1915, d. 1. júní 1996. Kjartan Aðalsteinn, f. 29. janúar, 1917, d. 27. mars 2006. Ingibjörg Guðný Jónína, f. 11. nóvember 1918. Guðbjörg Gróa og Bjarni Sigurður tvíburar, f. 28. október 1920. Bjarni Sigurður, d. 21. mars 1922. Elín Bjarney, f. 26. október, d. 28. september 2011. Óli Kristján, f. 21. september 1925, d. 26. apríl 2004 og Bjarni, f. 15. desember 1926. Um vorið 1930 andast Jón Ólason frá konu og 9 börnum heimilið er leyst upp og börnunum komið í fóstur á bæjum víða við Djúpið. Ella og systir hennar Valgerður fara í Vatnsfjörð til þeirra sæmdarhjóna séra Þorsteins Jóhannessonar prófasts og konu hans Laufeyjar Tryggvadóttur. Hjónin áttu börn fyrir sem eru Tryggvi, Þuríður, Jóhannes, Jónína Þórdís, látin 10. ágúst 1998, Haukur, fósturdóttirin Ella og síðan bættist við fósturdóttirin Sigulína Helgadóttir. Þau hjón létu sig ekki muna um að taka 2 föðurlausar stúlkur undir sinn verndarvæng. Eftir hefðbundna skólagöngu í Héraðsskólanum Reykjanesi og frábæra fræðslu hjá fósturforeldrunum í Vatnsfirði fór Ella í Húsmæðraskólann á Ísafirði. Um tvítugsaldur fór hún til Reykjavíkur í vist og lærði jafnframt saumaskap á saumstofunni Fix í Garðastræti. Hún vann síðan ýmis störf við eldamennsku lengst af við mötuneyti Háskóla Íslands á Gamla Garði. Árið 1951 giftist Ella Þóri Tryggvasyni loftskeytamanni, sem þá var fráskilinn með tvo unglinga á sínu framfæri Nínu og Friðrik Þórisbörn og sumarið 1951 eignast þau soninn Tryggva. Hjónaband Ellu og Þóris varð þó ekki langt því Þórir andast í júlí 1954 aðeins 51 árs að aldri. Eftir það vann Ella á saumastofum, í mötuneytum og tók að sér saumaskap fyrir verslanir. Undir 1960 kynnist hún seinni manni sínum Jóni Sigurðssyni frá Hjalla í Ölfusi. Þau giftu sig 24. apríl 1965. Systkini Jóns voru Þórunn, Sigurlaug, Ása, Magnús og Haraldur. Þau er nú öll látin nema Ása. Hjónin Ella og Jón fluttu í nýja íbúð í Fellsmúla 7 í Reykjavík 23. apríl 1965 og bjuggu þar allar götur síðan. Jón andast 17. oktober 1979 eftir afar erfið veikindi aðeins 63 ára að aldri. Ella vann síðan í áraraðir á barnaheimilinu Laugaborg við Leirulæk sem aðstoðarmatráðskona. Ella var lágvaxin, afar fíngerð og yndisleg kona og þrátt fyrir erfiða ævi og oft knappan fjárhag vildi hún öllum hjálpa eins og hún mögulega gat. Þetta fann fólk sem kynntist henni og það gladdi hana og hún mat mikils.

Útför Elínar Bjarneyjar Jónsdóttur verður gerð frá Háteigskirkju í dag, föstudaginn 7. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Mig langar að minnast nokkrum orðum elskulegrar fóstursystur minnar, Elínar Bjarneyjar Jónsdóttur, sem lést hinn 28. sept. sl. eftir langvinna og erfiða sjúkdómsbaráttu. Elín var fædd á Galtarhrygg, litlu býli í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp, ein níu systkina sem komust á legg. Faðirinn veiktist árið 1928 af alvarlegu innanmeini og andaðist á Sjúkrahúsi Ísafjarðar vorið 1930. Guðbjörg móðir hennar var þá 43 ára, ein með stóran barnahóp, elsta barnið 18 ára og yngstu börnin tvö fjögurra og fimm ára.

Enginn möguleiki var fyrir ekkjuna að sjá börnunum og heimilinu farborða. Varð því að ráði sveitarstjórnarinnar að börnin skyldu tekin í fóstur á nokkrum heimilum í sveitinni, að undanskildu næstyngsta barninu, Óla Kristjáni, sem var áfram í umsjá móður sinnar. Elín kom til foreldra minna í Vatnsfjörð og var þá á áttunda ári, einu ári eldri en ég. Hún undi sér vel á nýja staðnum og varð strax sem ein okkar systkinanna í leik og starfi.

Elín gekk í barnaskólann og síðar unglingaskólann í Reykjanesi. Árið 1942 fór hún í húsmæðraskólann á Ísafirði og næstu ár tók hún við starfi matráðskonu við héraðsskólann í Reykjanesi. Hún flutti til Reykjavíkur árið 1944 og fór þá í „vist“ eins og kallað var, fyrsta hálfa árið, en sótti jafnframt námskeið í fatasaum. Vann hún um tíma á saumastofu en nokkru síðar varð hún aðstoðarmatráðskona á Stúdentagörðunum. Elín giftist Þóri Tryggvasyni framkvæmdastjóra vorið 1951 og eignaðist með honum soninn Tryggva en missti mann sinn eftir fjögurra ára sambúð. Hún hóf búskap með Jóni Sigurðssyni byggingaverktaka árið 1961 og giftist honum í apríl 1964, en hann dó árið 1979. Elín var hamingjusöm í báðum sínum hjónaböndum, enda voru báðir eiginmennirnir hugsunarsamir, nærgætnir og dugandi menn.

Eftir lát Jóns vann Elín fyrir sér með saumaskap og öðrum störfum sem til féllu. Hún lét þessi áföll ekki buga sig og fann áfram hamingju í lífinu við sín störf og í samvistum við Tryggva, sem var augasteinn móður sinnar og reyndist henni elskandi, traustur og góður sonur. Hann hefur verið óþreytandi að sinna henni, aðstoða og hughreysta, ekki síst síðustu árin eftir að hún veiktist.

Elín bar með sér einstaklega hlýlegt viðmót. Hún var alltaf jákvæð og horfði jafnan á björtu hliðar lífsins, einnig eftir að hún var orðin rúmföst vegna veikinda. Hún var vel gefin, las mikið, var sérlega minnug og sagði vel frá. Hún var einstaklega dugleg við öll störf, sem hún vann af samviskusemi og ánægju. Þótt heilsunni hrakaði mjög síðustu árin hélt Elín sínum andlegu kröftum ótrúlega vel. Meira að segja daginn áður en hún andaðist gátum við rætt saman um daginn og veginn án þess að bæri á minnisleysi eða andvaraleysi. Þannig virtist engan bilbug á henni að finna meðan hún dró andann.

Við fóstursystkini hennar öll, sem eftir lifum, kveðjum Ellu með söknuði og miklu þakklæti fyrir langa, gleðiríka samveru og elskusemi og sendum Tryggva syni hennar hugheilar samúðarkveðjur.

Tryggvi Þorsteinsson.

Ég kveð í dag með söknuði, afasystur mína, Elínu Jónsdóttur. Minningar streymdu fram í hugann er ég fékk fréttir af andláti Ellu. Ég er þakklát fyrir að hafa þekkt hana og mun búa að því alla tíð.

Sterkustu minningarnar um Ellu eru þegar ég var lítil stelpa og fór oft í Fellsmúlann til hennar í heimsókn með foreldrum mínum. Það fyrsta sem Ella gerði var að opna forstofuskápinn og leyfa manni að skoða risastóran stafla af Andrésblöðum sem var eins og gull í augum barns. Hún bauð börnum líka alltaf upp á kók í gleri sem hún átti í kassa úti á svölum. Kaffiborðið hjá henni var alltaf einstaklega vel hlaðið af yndislegum kökum og öðru bakkelsi þannig að enginn fór svangur frá henni Ellu. Síðan átti hún það til að lauma seðli í lófa barna áður en þau fóru.

Pabbi heitinn bjó hjá Ellu í tvo vetur á skólaárum hans og reyndist hún honum einstaklega vel. Það var ekki auðvelt í þá daga að búa á Vestfjörðum og vera í skóla í höfuðborginni. Hann var heppinn að eiga hana að og hélt hann alltaf góðu sambandi við hana þangað til hann dó. Ella fylgdist líka vel með öllum í fjölskyldunni, hvernig lífið gekk hjá hverjum og einum og mundi ótrúlega marga afmælisdaga hjá stórfjölskyldunni. Það má segja að hún hafi verið sameiginlegur tengiliður og haldið fjölskyldunni saman. Hún var yndislega góð kona og vildi allt fyrir alla gera.

Ella bjó með syni sínum, Tryggva, og voru þau ætíð mjög náin. Hann hefur verið henni mikil hjálp eftir að hún fór að eldast og veit ég að lífið verður tómlegt án hennar.

Elsku Tryggvi, ég votta þér mína dýpstu samúð.

Inga Dóra Hrólfsdóttir.

Eigum við að skreppa inn í Fellsmúla? Þessi tillaga var ansi oft borin upp á heimili mínu hér á árum áður. Undantekningalaust var tillagan samþykkt einróma enda kannski ekki skrítið. Í Fellsmúla 7, til Ellu, Jóns og Tryggva var alltaf bæði gaman og gott að koma.

Mig langar að láta hugann reika til baka til þeirra tíma er ég var barn og skreppa inn í Fellsmúla.

Sunnudagur og pabbi leggur bílnum fyrir framan Fellsmúlann. Ég þarf að hraða mér inn í húsið því ég hef hlutverki að gegna. Það er ég sem á að hringja dyrasímanum og láta vita að við séum komin. Ég veit upp á hár hvaða hnapp ég á að ýta á enda hef ég gert það oft áður. Mild rödd svarar símanum og segir: „Halló“ og ég tilkynni að þetta sé Jón Sigurður. Dyrnar opnast. Ég hleyp í einum spretti upp stigana þar til að ég kem að hurð sem stendur í hálfa gátt. Ella frænka tekur á móti mér með brosi. Nafni kemur fram og heilsar og gantast við mig.

Þegar fullorðna fólkið er búið að koma sér fyrir í stofunni beinist athygli mín að forstofuskápnum. Skápur þessi geymir fjársjóð sem mig langar að komast í og kynnast betur. Það hvarflar ekki að mér að opna skápinn. Ég veit að ég þarf þess ekki. Eftir stundarkorn kemur Ella frænka til mín og spyr: „Langar þig að skoða Andrésblöðin?“ Ég kinka kolli og fjársjóðsdyrnar opnast. Í skápnum er óendanlega stór bunki af blöðum sem ég uni mér við að skoða. Þau eru á dönsku en það gildir einu fyrir mig.

Fullorðna fólkið sest við stofuborðið og spilar brids. Ella spilar stundum en víkur sæti eins og oft áður þegar spilarar eru fleiri en fjórir. Nafni er hrókur alls fagnaðar við borðið og sér spaugilegu hliðarnar á hlutunum. Það er kátt á Hjalla. Ella frænka fer fram í eldhús og fer að taka til kaffi og með því. Einhverju síðar finn ég að hönd er lögð á öxlina á mér og ég lít upp. Þar er Ella komin og réttir mér Malta-súkkulaði með bros á vör. Ég er alsæll og uni hag mínum vel þar til farið er heim undir kvöld.

Oftar en ekki voru í Fellsmúlanum fleiri gestir en við. Heimilið var í raun miðstöð fjölskyldu og vina og þar var oft glatt á hjalla. Allir sem þar komu voru velkomnir og tekið á móti þeim eins og höfðingjum. Ættingjar af landsbyggðinni komu við hjá Ellu þegar komið var til Reykjavíkur og við sem bjuggum á höfuðborgarsvæðinu komum reglulega í heimsókn. Enda er ég þess nokkuð viss að Ella framreiddi veisluborð flestar ef ekki allar helgar. Veisluföng sem sómi hefði verið að bera fram í fermingarveislum. Þetta gerði hún alla tíð með ánægju og brosi. Gestrisni var henni í blóð borin og meira að segja í seinni tíð þegar heilsa hennar var farin að gefa sig var erfitt eða ómögulegt að stöðva hana. Alltaf skyldi lagt á borð fyrir gesti.

Nú, þegar þessi hlýja og góða kona er fallin frá, myndast tómarúm sem ekki verður fyllt. Hún var alla tíð miðjan í fjölskyldunni okkar. Sú sem allir gátu og vildu leita til.

Ég kveð Ellu frænku með söknuði og þakklæti í huga og votta Tryggva frænda mína innilegustu samúð.

Jón Sigurður Ólason.

Söknuður og sorg í hjarta,

sannarlega erfið stund.

Engillinn með brosið bjarta

brátt kemst nú á endurfund.

Kát ég sat í kjöltu þinni,

kúrði í þínum örmum.

Minninguna geymi í minni,

mædd, með tár á hvörmum.

(RH)

Elsku Tryggvi. Ég votta þér innilega samúð mína. Minningin um Ellu mun lifa í okkar hjörtum.

Rannveig Hrólfsdóttir.