Þorri landsmanna gengur í skóla í að minnsta kosti í tíu ár. Allflestir hafa því skoðun á störfum grunnskólakennara og einhverra hluta vegna hafa mál þróast þannig að þetta ein fárra starfsstétta sem þurfa ítrekað að verja tilveru sína og starfshætti.

Þorri landsmanna gengur í skóla í að minnsta kosti í tíu ár. Allflestir hafa því skoðun á störfum grunnskólakennara og einhverra hluta vegna hafa mál þróast þannig að þetta ein fárra starfsstétta sem þurfa ítrekað að verja tilveru sína og starfshætti.

Auðvitað eru kennarar ekkert heilagir frekar en aðrir og gagnrýna hugsun er öllum hollt að ástunda og setja fram í ræðu og riti, þyki til þess ástæða. En það sætir furðu hversu oft skammirnar dynja á kennarastéttinni fyrir þær einar sakir að stór hluti hennar er af tilteknu kyni, því væntanlega hafa kennarar lítið um það að segja, rétt eins og aðrir.

Ný rannsókn sýnir að tæpur fjórðungur 15 ára reykvískra drengja getur ekki lesið sér til gagns. Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem áþekkar niðurstöður birtast, en margar rannsóknir hafa sýnt að drengir fá að meðaltali lægri einkunnir en stúlkur á samræmdum prófum, brottfall þeirra úr framhaldsskóla er talsvert meira og þeir fara síður í háskólanám. Eins og svo oft áður er fjöldi kvenkennara nefndur sem ein af helstu skýringunum.

Samkvæmt því er flest það sem aflaga fer í grunnskólakerfinu sprottið af þeirri „nöturlegu“ staðreynd að stór hluti kennara eru konur. Fjölgun kvenna í kennarastétt er sögð hafa haft í för með sér snarminnkandi virðingu fyrir starfinu og lækkun launa.

Slæleg námsframmistaða og treglæsi sumra drengja mun samkvæmt þessu vera vegna þess að fyrir framan töfluna stendur kona en ekki karl. Aukinheldur hefur því verið haldið fram að margur pilturinn sé baldinn á skólabekk bara vegna þess að enginn er karlinn til að koma á ró og skikk. Reyndar hafa rannsóknir sýnt að stúlkur hafa fengið hærri einkunnir en drengir í grunnskóla, svo áratugum skiptir og líka þegar kennarastéttin var nánast eingöngu skipuð körlum. Talað er um að drengi skorti karlkynsfyrirmyndir í skólanum, því þar sé allt morandi í kvenfólki. Getur kona ekki verið drengjum holl og góð fyrirmynd og stúlkur tekið karla sér til fyrirmyndar?

Ef kyn kennarans er svona óskaplega mikilvægur þáttur í námsframvindu barna, hvers vegna sýnir þá áðurnefnd rannsókn að mikill fjöldi unglingsstúlkna glímir við kvíða og vanlíðan? Ekki er hægt að kenna skorti á fyrirmyndum um. Vissulega eru vandamál í grunnskólum. En ástæðan er varla sú að konur eru í meirihluta meðal grunnskólakennara.

Vandamál samfélagsins endurspeglast gjarnan í skólastarfi. En þau verða sjaldan til innan veggja grunnskólans. Hvers vegna ætti grunnskólinn að geta útrýmt kynjamisrétti og úreltum klisjum, sem snúa að báðum kynjum, fyrst slíkt dafnar ennþá í samfélaginu?

Finnist einhverjum skorta dæmi til stuðnings þessari fullyrðingu er nærtækt að nefna nýlega nefndaskipan á Alþingi. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir