Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ernu Bjarnadóttur: "Frá ársbyrjun 2007 hefur innfluttur matur hækkað um 60,2% en íslensk búvara aðeins um 32%."

Umræða um verðlag matvöru hér á landi hefur náð nýjum hæðum á síðustu vikum. Nú síðast er verðhækkunum á kjöti kennt um aukna verðbólgu í landinu. Heimasíða Hagstofu Íslands inniheldur allar upplýsingar sem fréttamenn og aðrir þátttakendur í þjóðmálaumræðu þurfa á að halda til að geta fjallað málefnalega um orsakir verðbólgu og hvaða þættir það eru sem vega þyngst í útgjöldum heimilanna. Samkvæmt vísitölu neysluverðs í september eru búvörur án grænmetis 5,4% af útgjöldum heimilanna og mat- og drykkjarvörur í heild 14,6%. Bensín vegur hins vegar 5,9% og hefur hækkað um 23% frá sama tíma í fyrra. Liðurinn „ferðir og flutningar“ í heild vegur 15,2% og hefur hækkað um 13% á einu ári. Húsnæðisliðurinn nemur rösklega 24% af útgjöldum heimilanna og hefur hækkað um 8% á einu ári. Hiti og rafmagn hafa hækkað um 21% og vega nú 3,2% í útgjöldum heimilanna.

Innflutt matvæli hafa hækkað um rúm 60%

Frá ársbyrjun 2007 hefur innfluttur matur hækkað um 60,2% en íslensk búvara aðeins um 32%. Almennt verðlag í landinu hefur hækkað um 43% frá ársbyrjun 2007.

Athyglisvert innlegg í umræðu um útgjöld landsmanna til matvörukaupa er samanburður við önnur Evrópulönd. Á heimasíðu hagfræðistofnunar Evrópusambandsins, Eurostat, er hægt að skoða hvernig útgjöld neytenda í löndum ESB og EFTA skiptast innbyrðis samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs (HICP) sem Eurostat birtir. Hafa verður í huga að Eurostat gerir ýmsar breytingar á upplýsingum frá einstökum löndum til innbyrðis samræmingar. Því getur hlutfall útgjalda til einstakra málaflokka verið annað en birtist í upplýsingum Hagstofu viðkomandi lands. Samkvæmt upplýsingum Eurostat verja íslenskir neytendur 15,1% útgjalda sinna til matvörukaupa. Meðaltal ESB-landa er 15,6%, Svíar eyða 15,3% og Finnar 15,5% sinna útgjalda í mat. Aftur á móti eru útgjöld Dana til matvörukaupa aðeins 12,8% af heildarútgjöldum þó verðlag þar sé það hæsta í Evrópu. Pólskar fjölskyldur eyða hins vegar 21,4% útgjalda sinna í matvörur en þó er verðlag í Póllandi með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Meðfylgjandi mynd sýnir hlutfall heimilisútgjalda til kjötkaupa. Ísland er þar í flokki með Svíþjóð og Danmörku en langt undir meðaltali ESB.

Þeir sem taka þátt í umræðum um verðlagshækkanir og útgjöld heimilanna verða að vera málefnalegir. Það er fjarri lagi að íslenskar búvörur séu megindrifkraftur verðbólgunnar hér á landi, það er augljóst þegar rýnt er í opinber tölfræðigögn.

Höfundur er hagfræðingur Bændasamtaka Íslands.