Bílasalinn Skiptir mestu er að þekkja fólk og mynda tengsl. Muna eftir því hvenær viðskiptavinur kom og hvernig bíl hann var að leita eftir, segir Sif Björk Birgisdóttir sem er menntuð í alþjóðaviðskiptum og segir það nýtast sér vel í daglegu starfi. Ný bílasala sem Sif rekur, Bílaprís, er á Kletthálsi í Reykjavík og var opnuð nýlega.
Bílasalinn Skiptir mestu er að þekkja fólk og mynda tengsl. Muna eftir því hvenær viðskiptavinur kom og hvernig bíl hann var að leita eftir, segir Sif Björk Birgisdóttir sem er menntuð í alþjóðaviðskiptum og segir það nýtast sér vel í daglegu starfi. Ný bílasala sem Sif rekur, Bílaprís, er á Kletthálsi í Reykjavík og var opnuð nýlega. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Sif Björk Birgisdóttir er ein fárra kvenna sem hafa lagt bílasölu fyrir sig. Opnar nú nýja bílasölu á Kletthálsi í Reykjavík. Margir boltar á lofti í einu, hefur selt átta bíla á einum degi.

Auðvitað fylgir þessu starfi að hafa snert af bíladellu enda vekja fallegir og vel gerðir bílar alltaf athygli. Að bílarnir séu framúrstefnuleg listasmíði held ég samt að skipti flesta ekki svo ýkja miklu í raun. Þetta er í grunninn ekki annað en að komast til og frá vinnu, út í búð og með börnin í skólann. Þess vegna er ég alltaf mjög hrifin af smábílum og núna síðustu árin Toyota Yaris, þægilegum bíl sem skilar mér alltaf á áfangastað,“ segir Sif Björk Birgisdóttir bílasali.

Þúsund bíla á skrá

Í sl. viku opnaði Sif nýja bílasölu, Bílaprís, sem er við Klettháls. „Þetta er svona allt að smella saman. Ég er að fá tölvukerfi, samband við alls konar gagnalindir sem þarf og standsetja húsnæði og bílaplan. Þetta gerist ekki eins og að smella fingri. Undirbúningurinn tekur langan tíma og svo er að fá bíla í sölu en algengt er að vera með um það bil þúsund slíka svo allt virki vel,“ segir Sif sem hefur lengi starfað við bílasölu. Síðustu árin hefur hún unnið með bróður sínum Agnari Bergmann og saman hafa þau rekið Bílalíf. En nú eru þau komin með sína söluna hvort og eru báðar við Klettháls í Reykjavík; á bílasölusvæði sem er sérhannað með alla aðstöðu til fyrirmyndar

Bílaprís hefur fengið góðar viðtökur. „Það er búið að vera ótrúlega mikið rennirí hérna síðustu daga. Ég er mjög ánægð með hvernig þetta fer af stað,“ segir Sif sem aflaði sér réttinda sem löggiltur bílasali fyrir tíu árum. Þannig kann hún regluverk bílaviðskipta alveg upp á tíu þó að reynslan vegi alltaf þyngst.

Þekkja fólk og mynda tengsl

„Þetta kemur allt með tímanum. Maður lærir auðvitað fljótt á helstu tegundir og gerðir bíla og hvaða þættir ráða verðmyndun. En það sem skiptir líklega mestu er að þekkja fólk og mynda tengsl. Muna eftir því hvenær tiltekinn viðskiptavinur kom við, hvernig bíl hann var að leita eftir og slá svo á þráðinn og færa viðkomandi þær góðu fréttir að nú sé draumabíllinn kominn og bíði eftir nýjum eiganda,“ segir Sif sem síðustu árin hefur sinnt bílasölunni í ígripum jafnhliða námi í viðskiptafræðum við Háskólann í Reykjavík. Segir námið og þá þekkingu sem hún hefur aflað sér þar, meðal annars meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum, nýtast vel í daglegu starfi.

„Hins vegar er bílasala þannig starf að henni verður ómögulega sinnt nema vera í þessu af fullum krafti. Maður þarf allan daginn til að spinna þræðina. Stundum eru margir boltar á lofti í einu og það getur tekið tíma að koma þeim öllum í mark. Auðvitað eru stundum dæmi um að bíll sem er settur á skrá er seldur eftir klukkutíma en stundum tekur kannski hálfan mánuð að ljúka máli og landa samningi. Stundum eru mörg mál samhangandi og fyrir nokkrum árum þegar þannig stóð á náði ég að landa átta samningum á einum degi; sem var á einum af þessum dögum þegar í stressinu varð að sleppa bæði hádegismat og síðdegiskaffi,“ segir Sif sem er ein fárra kvenna sem hafa lagt bílasölu fyrir sig og aflað sér löggildingarinnar sem fyrr er nefnd.

Greiðslukortin góður kostur

Það er talsvert um að vera á bílamarkaði um þessar mundir. Talsverð eftirspurn er í dag, að sögn Sifjar, eftir notuðum bílum og það í öllum verðflokkum. „Regla fjármögnunarfyrirtækjanna er að lána aðeins 70% til kaupa á bílum sem ekki mega vera eldri en árgerð 2004 sem þurfa jafnframt að vera kaskótryggðir. Fyrir vikið henta slík lán fyrst og fremst til kaupa á dýrari bílum. Fyrir þá sem vilji og þurfi enn ódýrari bíla geta bílalán greiðslukortafyrirtækjanna verið ágætur kostur en þau geta verið allt að hálf milljón króna og seljandinn fær andvirði bílsins greitt út eftir tvo daga,“ segir Sif Björk Birgisdóttir sem hlakkar mjög til þess spennandi viðfangsefnis sem framundan er.

sbs@mbl.is