Stefnumót Þegar Sigmundur Eyþórsson veiddi um liðna helgi hvar Dalsá rennur í Hvítá, sigldu áhorfendur hjá.
Stefnumót Þegar Sigmundur Eyþórsson veiddi um liðna helgi hvar Dalsá rennur í Hvítá, sigldu áhorfendur hjá. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Alls veiddust 726 laxar í Stóru-Laxá í Hreppum í sumar og segir Esther Guðjónsdóttir á Sólheimum, formaður veiðifélagsins, að það sé mjög góð útkoma eftir sumar sem einkenndist af vatnsleysi, og næstbesta veiðin í ánni síðan farið var að halda utan um veiðitölur.

Esther segir veiðina hafa aðallega komið af svæðum I og II, lítið hafi veiðst á efri svæðunum.

„Það lifnaði yfir veiðinni upp úr miðjum ágúst og svo veiddist mjög mikið í lokin, síðasta hollið fékk 117 laxa,“ segir hún, en þeir veiddust á fjórar stangir á tveimur dögum.

Um 570 löxum sem veiddust í Stóru-Laxá í sumar var sleppt aftur.

„Það var ekki mikið af stórlaxi en þó alltaf einn og einn. Ég held að það hljóti allir að vera ánægðir með þessa útkomu,“ segir hún en í bókina voru færðir nokkrir fiskar um tuttugu pund.

Hópur veiðifélaga sem kallar sig Sogsmenn veiddi í fjóra daga í Stóru-Laxá í september og einn þeirra, Karl Logason, segir að ekki sé hægt að kalla veiðina annað en mok, því þeir veiddu alls 126 laxa.

„Það var mikið af laxi og þá sérstaklega neðarlega á svæðinu. Stekkjarnef og Kóngsbakki voru stappaðir af fiski en það var mjög lítið vatn í ánni,“ segir Karl. „Það lá óhemja af fiski þar en svo var slatti í stöðum eins og Kálfhagahyl og Illakeri.“

Og laxinn tók vel.

„Já, hann tók vel. Við gátum ekki kvartað. Einn morguninn var fimm gráða frost og aðstæður fáránlegar, sól og logn. Við byrjuðum að veiða klukkan tíu og óðum gegnum íshröngl. En lax var á strax í öðru kasti og síðasta hálftímann setti ég í fimm. Þá var allt orðið vitlaust, við aðstæður þegar ætti í raun ekki að vera hægt að veiða neitt,“ segir Karl.

Best í Bíldsfelli

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur var laxveiðin í Soginu einnig sú næstbesta frá því skráningar hófust. Voru 752 laxar færðir til bókar á svæðum félagsins, Ásgarði, Bíldsfelli og Alviðru, en ekki er enn vitað um veiðina á Syðri-Brú og Torfastöðum.

Fyrir Ásgarðslandi veiddust 237, við Bíldsfell 387, 88 í Alviðru og 40 í Þrastarlundi.

Inni á milli voru stórir drellar, þar á meðal 105 og 104 cm laxar.

Þrátt fyrir að laxveiði sé víðast lokið þá tínast enn laxar úr Rangánum. Í þeirri eystri veiddust um 40 í liðinni viku. Veiðinni er hinsvegar lokið í Breiðdalsá, þar sem líka er byggt á seiðasleppingum, en þar var metveiði í ár, 1430 laxar.

GÓÐ SKOT Í SJÓBIRTINGSVEIÐI Í VESTUR-SKAFTAFELLSSÝSLU

Hollin að fá 19 til 30 fiska

Veiðimenn sem kasta fyrir sjóbirting í Vestur-Skaftafellssýslu hafa náð ágætri veiði upp á síðkastið. Um síðustu helgi veiddust til að mynda um 30 fiskar í Tungulæk. Nokkrir voru vænir eða yfir 80 cm langir og er hafy eftir veiðimönnum að fiskur sé að ganga í auknum mæli.

Á sama tíma mætti holl vanra veiðimanna að Tungufljóti í Skaftártungu en þá var fljótið í ham eftir rigningar. Hollið á undan hafði landað 19 fiskum og þar á meðal einum 16 punda. Þegar sjatnaði fór fiskur að taka hjá þessum mönnum og fengu þeir nokkra góða, þar á meðal einn 16 punda í skilum jökulvatnsins við Syðri-Hólma sem er aðal veiðistaðurinn í Tungufljóti eins og mörg síðustu ár.