Þjófar vilja athafna sig í skjóli frá umgangi og athygli. Bílar með varnarkerfi ekki á óskalista þeirra, segir Úlfar Guðmundsson hjá Aukaraf AMG í Kópavogi.

F ólk sem hingað kemur til að fá þjófavarnakerfi í bílinn er yfirleitt að hugsa um hlutina með forsjálni. Margir eru með búnað í bílnum sínum fyrir tugi þúsunda og vilja minnka líkur á því að verða fyrir þjófnaði. Hávaðinn sem fylgir þjófavarnakerfi er það mikill að það er öruggt að hann vekur mikla eftirtekt. Þjófar vilja helst geta athafnað sig í skjóli frá umgangi og athygli og því eru bílar með þjófavarnakerfi ekki efstir á óskalista þeirra,“ segir Úlfar Haraldsson sölu- og markaðsstjóri hjá AMG Aukaraf í Kópavogi.

AMG Aukaraf hefur lengi verið með umboð fyrir Crimestopper öryggisbúnað í bíla; annars vegar samlæsingar og hins vegar þjófavarnarkerfi en þá eru í pakkanum tvær fjarstýringar, sírena, húddrofi, ljósadíóða sem blikkar og búnaður sem skynjar hvort átt sé við bílinn til að mynda með höggi.

„Auðvitað kemur mjög illa við fólk ef brotist er inn í bíla þess. Tjónið fer fljótt í talsverðar upphæðir. Gefum okkur til dæmis að GPS-tæki og geislaspilari séu tekin úr bíl er það tjón sem er oft nálægt 100 þúsund krónum eða meira og miðað við algenga sjálfsábyrgð tryggingafélaga þarf bíleigandi sjálfur að bera þann skaða,“ segir Úlfar. „Þá er eftir að kaupa nýja rúðu í bílinn, setja hana í og mögulega lagfæra frekara tjón á bílnum sem getur numið tugum eða hundruðum þúsunda. Gefum okkur að rúða sé brotin og fartölva tekin úr bíl þá fylgir slíku mikið fjárhagslegt tjón – auk þess sem með tölvunni glatast gögn sem tæplega verða bætt.“

Filma minnkar líkur

Algengt er að þjófavarnabúnaður í bíla líkt og fæst hjá AMG Aukaraf kosti á bilinu 55 til 65 þúsund ísettur. Þá hafa margir einnig brugðist við þeim vanda sem fylgir innbrotum í bíla með því að setja dökkar filmur á rúður bílsins sem minnka mikið líkur á því að þjófar komi auga á eitthvað bitastætt inni í honum. sbs@mbl.is