Þegar fólk á afmæli gerir það sér gjarnan dagamun. Sóley Víglundsdóttir, þjónn með meiru, er fimmtug í dag og ætlar að halda upp á það heima með nánustu fjölskyldu og vinum.

Þegar fólk á afmæli gerir það sér gjarnan dagamun. Sóley Víglundsdóttir, þjónn með meiru, er fimmtug í dag og ætlar að halda upp á það heima með nánustu fjölskyldu og vinum. „Dæturnar tvær ýttu á mig um að halda veislu,“ segir hún um tímamótin og bætir við að hún sé annars í eldhúsinu alla daga, hafi hlaupið í skarðið í Brúarskóla í Reykjavík, en tíminn þar sé reyndar senn á enda.

Sóley vann í veitingabransanum sem þjónn um árabil og rak meðal annars Matstofu Sóleyjar við Smiðjuveg í Kópavogi og áður Sportarann í Hafnarfirði. Ferillinn í veitingahúsunum hófst í Sjallanum á Akureyri og eftir að hún flutti suður vann hún meðal annars í Naustinu. „Ég hef verið í þessum bransa í mörg ár og hann togar alltaf í mig,“ segir hún. Fyrir vikið hafi hún ekki haft margt annað fyrir stafni, „en ég reyni að fara að fara í ræktina eins og allir hinir segja.“

Dæturnar eru í skóla, en mæðgurnar leyfðu sér þann munað að fara til Búlgaríu fyrir um tveimur árum og draumurinn er að fara aftur til útlanda innan skamms. „Það var mjög gaman í Búlgaríu og stefnan er að láta það eftir sér að fara aftur út næsta sumar, kannski til Spánar,“ segir afmælisbarn dagsins. steinthor@mbl.is