Esjan Skaflinn í Gunnlaugsskarði á dögunum en hann hefur ekki horfið í ár.
Esjan Skaflinn í Gunnlaugsskarði á dögunum en hann hefur ekki horfið í ár. — Ljósmynd/Veðurstofan
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni virðist ætla að hafa það af þetta árið, en hann hefur horfið á hverju ári frá 2001 eða í áratug.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni virðist ætla að hafa það af þetta árið, en hann hefur horfið á hverju ári frá 2001 eða í áratug. „Það er heldur ólíklegt að það komi sú hlýja í október að hann hverfi þó að snjórinn sem hefur fallið þarna fari,“ segir Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og helsti sérfræðingur í skaflinum og hátterni hans. „En það er samt ekki hægt að fortaka það.“

Páll segir að áður en fór að snjóa á dögunum hafi mátt grilla í skaflinn í litla stund. Hann sé því á sínum stað. „Það eru mestar líkur til þess að hann geymist þarna í vetur og fram á næsta sumar.“

Á árunum 2001 til 2010 hvarf skaflinn eftir 25. september. Páll hefur bent á að mikið hafi snjóað í apríl og þó að snjóinn hafi fljótlega tekið upp í byggð hafi hann safnast fyrir í fjöllum og m.a. í Gunnlaugsskarði. Tiltölulega kalt hafi verið í júní og sumarhitinn undir meðallagi síðasta áratugar. Fyrir um þremur vikum sagði Páll að stæði skaflinn af sér komandi rigningar og hlýindi gæti hann dugað til vetrar. Sú spá virðist ætla að ganga eftir.

Hitamælir

Árni Sigurðsson vitnar í Pál og skrifar á vef Veðurstofunnar að í hlýjum árum bráðni skaflinn, „áður en snjór tekur að safnast þar fyrir aftur að hausti, en á köldum tímabilum helst hann allt árið. Fram undir aldamót hvarf skaflinn yfirleitt ekki“.

Páll hefur fylgst með skaflinum um árabil og kannað mælingar úr honum. Samkvæmt könnunum hans hvarf skaflinn ekki í heilan áratug a.m.k. frá árinu 1863. „Þetta er í rauninni mjög nákvæmur hitamælir því maður getur áætlað mjög vel 10 ára meðalhita eftir því hvað skaflinn hefur horfið oft á því tímabili,“ segir Páll. Margir fylgjast með skaflinum og Páll vill ekki fullyrða að hann hafi það af að þessu sinni, „en það eru mestar líkur til þess“.