Boris Johnson
Boris Johnson
Svo að segja allt er tilbúið í London til þess að halda Ólympíuleika á næsta ári.

Svo að segja allt er tilbúið í London til þess að halda Ólympíuleika á næsta ári. Þetta segir Boris Johnson, borgarstjóri, en hann er með fjölmenna sveit frá Alþjóða ólympíunefndinni í heimsókn þessa vikuna til þess að taka út mannvirki og fleira í tengslum við leika sem fram fara í júlí nk. Johnson segir öll íþróttamannvirki sem eiga að hýsa hinar margvíslegu keppnisgreinar Ólynmpíuleikana vera tilbúin. Þá hafi verið fyrir nokkru lögð lokahönd á ólympíugarðinn, sem verður nokkurskonar samkomustaður fyrir gesti Ólympíuleikana.

Margir hafa talið að samgöngur gætu orðið erfiðar í austurhluta London þar sem meginþungi Ólympíuleikana verður. Johnson segir enga ástæðu til að óttast að samgöngurnar verði ekki lagi. Nýlega hafi almenningssamgöngur í borginni verið endurskipulagðar með það fyrir augum að þær ráði við aukna umferð gesta og þar af leiðandi eigi flöskuhálsar ekki gera gestum lífið leitt. Milljörðum hafi verið varið til að bæta samgöngur en svo sannarlega muni ekki reyna á þær fyrr en gestir fari að streyma til borgarinnar til þess að fylgjast með keppni á leikunum.

„Þótt mannvirki og samgöngur hafi verið bætt þá eigum við enn eftir að hnýta nokkra lausa enda áður en ólympíueldurinn verður kveiktur við upphaf leikanna. Öllum stærstu hindrununum hefur hinsvegar verið rutt úr vegi og mikil eftirvænting ríkir meðal okkar eftir leikunum,“ segir Boris Johnson borgarstjóri í Lundúnum. iben@mbl.is