— Morgunblaðið/Ómar
Anatoly Karpov, fyrrum heimsmeistari í skák, kom til Íslands í gær í tilefni af 111 ára afmæli Taflfélags Reykjavíkur, en hann gekk nýverið í raðir þess.

Anatoly Karpov, fyrrum heimsmeistari í skák, kom til Íslands í gær í tilefni af 111 ára afmæli Taflfélags Reykjavíkur, en hann gekk nýverið í raðir þess. Hann verður ennfremur viðstaddur setningu Íslandsmóts skákfélaga á morgun

Að sögn Friðriks Ólafssonar stórmeistara er koma Karpovs mikil lyftistöng fyrir skákíþróttina. Í heimsókn sinni til Taflfélags Reykjavíkur í gær vakti skákskýringarborð athygli Karpovs. „Það var notað við einvígi okkar Bent Larsens árið 1956,“ segir Friðrik. „Það er orðið snjáð og það átti að henda því. En einhver rifjaði þá upp sögu borðsins.“

Meðan á Íslandsdvölinni stendur mun Karpov meðal annars tefla við unga skákmenn, tefla fjöltefli í Ráðhúsi Reykjavíkur og fara að gröf Bobby Fischers. Þeir Friðrik munu tefla sýningarskák í dag klukkan hálf-fimm, en þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem þeir eigast við. „Við höfum verið að kljást frá árinu 1971 á skákmóti í Moskvu. Hann er erfiður andstæðingur, en mér tókst að vinna hann síðast þegar við tefldum, árið 1980.“

annalilja@mbl.is