Málin rædd Kofi Annan og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum í gærdag. Annan flytur í dag ræðu á hátíðarmálþingi í Háskóla Íslands í tilefni 100 ára afmælis skólans. Hann kom til landsins síðdegis í gær.
Málin rædd Kofi Annan og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum í gærdag. Annan flytur í dag ræðu á hátíðarmálþingi í Háskóla Íslands í tilefni 100 ára afmælis skólans. Hann kom til landsins síðdegis í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is „Það verður að líta á bankakreppuna í heiminum frá breiðu sjónarhorni. Þetta eru ekki bara erfiðleikar bankanna, því í lok dags er það líf fólksins sem hangir á línunni.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

„Það verður að líta á bankakreppuna í heiminum frá breiðu sjónarhorni. Þetta eru ekki bara erfiðleikar bankanna, því í lok dags er það líf fólksins sem hangir á línunni. Það er atvinnulaust, úrræðalaust og þunglynt vegna ástandsins,“ sagði Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, á blaðamannafundi á Bessastöðum síðdegis í gær. Áður hafði hann átt fund með forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni.

Fjármálakreppan í heiminum var Annan hugleikin. Sagði hann að það þyrfti að horfa á hana sem samfélagsvandamál. „Traust almennings er horfið, fólk treystir hvorki stjórnmálamönnum né leiðtogum fjármálaheimsins. Fólkinu finnst þeir ekki vera að takast á við vandamálin sem snerta það,“ sagði Annan. Hann kvaðst hafa fylgst vel með því hvernig tekist var á við kreppuna hér á landi og sagði að aðrar þjóðir í efnahagserfiðleikum gætu lært margt af Íslendingum.

Hliðraði til í dagskránni

Annan flytur í dag upphafsræðuna á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í tilefni af hundrað ára afmæli skólans. Málþingið ber heitið „Áskoranir 21. aldarinnar“ og fer fram í Háskólabíói. Fyrirlestur Annans fjallar um hvernig við getum endurreist traust á sameiginlega framtíð okkar.

Annan sagðist vel muna eftir fyrstu heimsókn sinni til Íslands og kvaðst ánægður með að vera staddur hér aftur. „Þegar mér var boðið að koma og fagna 100 ára afmæli háskólans gat ég ekki neitað og hliðraði til í dagskrá minni. Háskólar leika stórt hlutverk í framtíðinni í víðu samhengi.“

Vill sjá Palestínuríki stofnað

Spurður út í umsókn Palestínu að Sameinuðu þjóðunum sagði Annan að það væri mikilvægt fyrir SÞ að tryggja stofnun Palestínuríkis. „Sameinuðu þjóðunum og sérstaklega þeim löndum sem eiga fast sæti í Öryggisráðinu ber lagaleg og siðferðisleg skylda til að klára þá vinnu sem hófst 1988. Við höfum ekki séð neinn árangur á síðustu tuttugu árum. Alþjóðasamfélagið og Sameinuðu þjóðirnar verða að aðstoða við að ljúka þeirri vinnu,“ sagði Annan.