Andri Karl andri@mbl.is Hæstiréttur dæmdi í gær Þorvarð Davíð Ólafsson í fjórtán ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Þorvarður Davíð réðst á föður sinn, Ólaf Þórðarson tónlistarmann, í nóvember á síðasta ári.

Andri Karl

andri@mbl.is

Hæstiréttur dæmdi í gær Þorvarð Davíð Ólafsson í fjórtán ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Þorvarður Davíð réðst á föður sinn, Ólaf Þórðarson tónlistarmann, í nóvember á síðasta ári. Rétturinn staðfesti með þessu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Að auki var Þorvarði gert að greiða föður sínum þrjár milljónir króna í bætur.

Þorvarður Davíð var ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara stórfellda líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 14. nóvember 2010 veist með ofbeldi að föður sínum, m.a. sparkað í maga hans, tekið hann hálstaki, kýlt hann tvisvar í höfuð með hnúajárni svo hann féll og sparkað ítrekað í andlit hans þar sem hann lá upp við steyptan arin, þannig að höfuðið kastaðist í arininn, og ítrekað stappað og hoppað ofan á höfði hans og hálsi og ekki hætt fyrr en hann rann til í blóði.

Ekki aftur til meðvitundar

Af atlögunni hlaut Ólafur lífshættulegan höfuðáverka, útbreidda áverka á höfði, marbletti og skurði, blæðingar í heilavef og fyrir utan heila. Í vottorði frá 6. september sl. frá endurhæfingardeild Landspítalans, sem lagt var fyrir Hæstarétt, kemur fram að Ólafur er enn meðvitundarlítill, tjáir sig ekki og sýnir engin merki um viljastýrða virkni. „Hann skynjar þannig ekki umhverfi sitt á neinn vitrænan hátt og er í svokölluðu skynlausu ástandi [...] Þar sem engar merkjanlegar framfarir hafa orðið nú tíu mánuðum eftir áverkann eru yfirgnæfandi líkur á því að um varanlegt ástand sé að ræða og þar með ekki líkur á því að hann komist til meðvitundar.“

Þorvarður játaði árásina en neitaði sök hvað varðar tilraun til manndráps. Margt þótti benda til ásetnings, og taldi dómurinn að honum hlyti að hafa verið ljóst að langlíklegast væri að bani hlytist af. Mat dómurinn það svo að Þorvarður Davíð ætti sér engar málsbætur og bæri fulla refsiábyrgð.