Una Margrét Jónsdóttir
Una Margrét Jónsdóttir
Eftir Unu Margréti Jónsdóttur: "Ég get hins vegar frætt Ásgeir á því að sú lítilmótlega hegðun að ganga fram hjá slysi eða að skipta sér ekkert af líkamsárás er ekki fundin upp á Íslandi."

Ásgeir Ingvarsson skrifar pistil í Morgunblaðið 20.9. sl. undir fyrirsögninni „Fer að verða skortur á hetjum?“ Segist hann hafa áhyggjur af því að Íslendingar séu að breytast í lítilmenni. Nýlega hafi komið frétt um það að hópur fólks í Bandaríkjunum hafi bjargað manni undan brennandi bíl, en Ásgeir efast um að slíkt hefði getað gerst í Reykjavík því reglulega segist hann heyra innlendar fréttir um það að menn hafi gengið framhjá slysstað eða staðið aðgerðalausir þegar ráðist hafi verið á varnarlausa. „Ég hef þá kenningu að risavaxið mömmuríkið sé helsta ástæðan fyrir þessum siðferðisbresti,“ segir Ásgeir. „Skattpíningin gerir okkur máttvana (...) Við fáum ekki að finna til okkar sem baráttu- og velgjörðarmenn því ríkið er búið að taka af okkur peninginn og taka að sér að sjá um allt: rétta allt óréttlæti og jafna alla misskiptingu. (...) Er nema von að fólk aki framhjá nýskeðu bílslysi eða illa höldnum hundi. Er ekki hvort eð er von á nefnd embættismanna til að bjarga málunum?“

Ásgeir nefnir reyndar aðeins eitt dæmi um þennan meinta siðferðisbrest Íslendinga og það dæmi er dálítið óheppilega valið því þar var einmitt komið til hjálpar: kona tók til sín hund sem eigandinn hafði farið illa með. Það sem hneykslar Ásgeir er líklega það að 6 aðrir sem kvartað höfðu til yfirvalda út af meðferðinni á hundinum skyldu ekki gera þetta sama. En þar held ég nú reyndar að rótgróin virðing fyrir eignarrétti sé líklegri ástæða en hitt að fólkið borgi of háa skatta.

Ég get hins vegar frætt Ásgeir á því að sú lítilmótlega hegðun að ganga fram hjá slysi eða að skipta sér ekkert af líkamsárás er ekki fundin upp á Íslandi. Á ensku er þetta kallað „bystander effect“ og má lesa um það í sálfræðikennslubókum. Atvikið sem varð til þess að þessi hegðun var rannsökuð og skilgreind gerðist reyndar einmitt í Bandaríkjunum, því draumalandi þar sem Ásgeir heldur að allir séu svo hjálpsamir. Kona að nafni Kitty Genovese var stungin til bana við fjölbýlishús í New York árið 1964. Margir íbúanna heyrðu hana hljóða, sumir sáu árásina sem stóð í þó nokkurn tíma, en aðeins einn hringdi á lögreglu.

Þetta er engan veginn eina dæmið sem vitað er um. Fletti maður upp á „bystander effect“ í Wikipediu má sjá að í rannsóknum þar sem sviðsett hefur verið árás eða slys í margmenni er algengt að enginn komi til hjálpar. Einnig eru nefnd raunveruleg dæmi frá síðustu árum, t.d. um Sergio Aguiar sem barði tveggja ára son sinn til bana að viðstöddum hópi fólks í Kaliforníu árið 2008, en enginn reyndi að taka af honum barnið. Og maður nokkur var stunginn til bana á götu í Queens árið 2010 og a.m.k. 20 manns gengu fram hjá honum þar sem hann háði dauðastríðið á gangstéttinni.

Ásgeir velur reyndar afar undarlegan tíma til að halda því fram að kaldlyndi og afskiptaleysi vitna að slysi eða árás sé sérstakt einkenni á þjóðum með háa skatta og sterkt velferðarkerfi. Hann hefði átt að minnast þess að fyrir aðeins tveimur mánuðum lögðu margir almennir borgarar í Noregi sig í lífshættu og sigldu bátum sínum að Útey til að bjarga fólki undan morðingja með hlaðna byssu. Ekki virðist „mömmuríkið“ hafa vafist fyrir mönnum þar.

Ég hef fyrr séð menn halda því fram að áður en sú ósvinna komst á að láta ríkið hjálpa þeim sem eiga undir högg að sækja hafi fólk almennt verið miklu hjálpsamara, menn hafi bara hjálpað hver öðrum án þess að nokkrar reglur kæmu til. Já, þá riðu hetjur um héruð!

Dálítið er samt erfitt að koma þessu heim og saman þegar maður skoðar Íslandssöguna. Hvers vegna dó fólk úr hungri? Hvers vegna varð förufólk úti eftir að hafa verið úthýst af þeim sem áttu húsaskjól? Hvers vegna voru börn tekin af fátækum foreldrum og gerð sveitarómagar hjá þeim sem vildu ala þau með sem minnstum kostnaði? Hvar var hjálpsemin þá?

Um eitt erum við Ásgeir hins vegar sammála: það er á valdi okkar sjálfra hvernig við bregðumst við þegar þörf er á hjálp okkar. Og þótt enginn viti hvernig fer þegar á hólminn er komið sakar ekki að einsetja sér að reyna að líkjast þeim sem hjálpa fremur en þeim standa aðgerðalausir hjá; að taka Norðmennina sem sigldu út í Útey sér til fyrirmyndar frekar en hin aðgerðalausu vitni að morði Kitty Genovese.

Höfundur er dagskrárgerðarmaður.

Höf.: Unu Margréti Jónsdóttur