Fjárlög Fjármálaráðherra kynnti frumvarpið á dögunum.
Fjárlög Fjármálaráðherra kynnti frumvarpið á dögunum. — Morgunblaðið/Golli
Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands telja fjárlagafrumvarp næsta árs standa á veikum grunni og gagnrýna harðlega ýmsa efnisþætti þess í ályktunum sem gefnar voru út í gær.

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands telja fjárlagafrumvarp næsta árs standa á veikum grunni og gagnrýna harðlega ýmsa efnisþætti þess í ályktunum sem gefnar voru út í gær. Miðstjórn ASÍ lýsti yfir vonbrigðum sínum með frumvarpið og telur hún það byggt á „veikum forsendum um efnahagsbata sem því miður sé lítil innistæða fyrir“. SA tekur í sama streng og bendir á að frumvarpið byggist á spá Hagstofunnar frá því í sumar en í henni er gert ráð fyrir 3,1% hagvexti á næsta ári. Síðasta spá Seðlabankans gerir hinsvegar ráð fyrir 1,6%, en frá því að hún var gefin út í ágúst hafa horfurnar versnað til muna, meðal annars vegna versnandi ástands á helstu útflutningsmörkuðum.

Skattar á sjávarútveg og fjármálafyrirtæki draga úr tekjum

Áherslur stjórnvalda í skattamálum fyrir næsta ár falla í grýttan jarðveg hjá bæði SA og ASÍ. Í áliti SA segir að það veki undrun að tveim atvinnugreinum, sjávarútvegi og fjármálageiranum, sé ætlað að standa undir stærstum hluta aukinnar skattheimtu á næsta ári, og líkur séu á því að viðbótartekjur ríkissjóðs vegna þessara hækkana verði minni en frumvarpið segi til um. Meðal annars vegna þess að aðrir skattar fyrirtækja í þessum atvinnugreinum hljóti að minnka af völdum þessara nýju álagna. Einnig muni fyrirtæki í þessum greinum mæta áhrifum aukinnar skattheimtu, s.s. með útvistun, minnkun umsvifa og uppsögnum. Samtök atvinnulífsins telja að þeir veikleikar sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu þýði að hallinn á rekstri ríkissjóðs á næsta ári verði að lágmarki 12-15 milljörðum meiri en stefnt er að.

Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega áform um tvísköttun lífeyrissparnaðar einstaklinga umfram 2% og telur hún „það hyggilegri leið út úr kreppu að hvetja til sparnaðar og fjárfestinga fremur en að refsa fólki fyrir að spara“. Ennfremur gagnrýnir miðstjórnin áform um að hækka elli-, örorku- og atvinnuleysisbætur um 5.500 krónur á næsta ári þegar lægstu laun eiga að hækka um 11 þúsund krónur. Minnt er á í áliti miðstjórnarinnar að þetta sé ekki í samræmi við það sem samið var um við ríkisstjórnina í vor í tengslum við gerð kjarasamninga og „furðar miðstjórnin sig á því að stjórnvöld ætli sér ekki að efna þá samninga“.

Gagnrýnin á fjárlagafrumvarpið
» Bæði SA og ASÍ telja fjárlög næsta árs byggð á hagvaxtarspá sem er mörkuð of mikilli bjartsýni.
» SA telur veikleika frumvarpsins fela i sér a.m.k 12-15 milljörðum meiri halla en stefnt er að.
» ASÍ gagnrýnir tvísköttun á lífeyrissparnaði harðlega og sakar stjórnvöld um að standa ekki við samkomulag í tengslum við kjarasamninga.