Pétur Stefánsson er í sömu sporum og þorri þjóðarinnar: Að mér sækir lúi og leiði, lífsins gleði er hulin sýnum, þó endalaust ég greiði og greiði, grynnkar ei á skuldum mínum.

Pétur Stefánsson er í sömu sporum og þorri þjóðarinnar:

Að mér sækir lúi og leiði,

lífsins gleði er hulin sýnum,

þó endalaust ég greiði og greiði,

grynnkar ei á skuldum mínum.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Fía á Sandi, svarar að bragði:

Á skuldum er ég ekki þreytt

og andleg heilsa fín

enda kaupi ég aldrei neitt

annað en brennivín.

Og hún bætir við:

Kúri ég á krónunum

koddinn geymir seðla.

Ég held ég rétti rónunum

í ræsinu, nokkra bleðla.

Pétur fyllist þakklæti:

Æi Fía, þakka þér

– þú sem engan svíkur,

seðlabúntin sendu mér

suður til Reykjavíkur.

Fía slær á létta strengi:

Sannlega máttu fá seðil og vín

og svolítið knús fyrir óðinn.

Þegar þú kemur í kaffi til mín

með kossi ég rétti þér sjóðinn.

Pétur svarar óðar:

Lífið mitt er leikur og glens,

lífsleiðinn burtu fokinn.

Maður er kominn á syngjandi sjens.

Sjáumst í vikulokin.

Þá renna tvær grímur á Fíu:

Bóndanum verður nú varla skemmt

hann veit hvað mér finnst þú sætur.

Því held ég í dag, væri heldur snemmt.

Hittumst seinnipart nætur.

Og Pétur klykkir út með:

Eftir rakstur og ylvolgt bað

upp úr klukkan 10

ætla ég að strunsa af stað

á stefnumót við Fíu.

Pétur Blöndal pebl@mbl.is