Bílakóngur Vincent Bollore er frumkvöðull á sviði rafgeymasmíði. Hér kynnir hann Autolib þjónustu sína í París. Þetta er tilraunaverkefni til þriggja mánaða og svo verður staðan metin og framhaldið látið ráðast.
Bílakóngur Vincent Bollore er frumkvöðull á sviði rafgeymasmíði. Hér kynnir hann Autolib þjónustu sína í París. Þetta er tilraunaverkefni til þriggja mánaða og svo verður staðan metin og framhaldið látið ráðast. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undanfarin ár hafa gestir og gangandi í höfuðborg Frakklands getað gripið reiðhjól á sjálfsölustöðum. Nú er verið að útfæra þessa þjónustu og hægt verður að leigja rafbíla.

Tilgangurinn með rafbílaleigunni er meðal annars sá að stuðla að minni umferð mengandi bensín- og dísilbíla um þétteknar breiðgötur Parísarborgar. Vonast er til að þjónustan, sem gengur undir heitinu Autolib, eigi eftir að verða gangandi auglýsing fyrir rafbíla, en framleiðendur fólksbíla eru að snúa sér að smíði slíkra bíla í auknu mæli.

Um er að ræða tilraunaverkefni fyrstu tvo mánuðina en í því felst að fólk geti leigt sér svonefndan Bluecar-rafbíl í 30 mínútur fyrir fjórar til átta evrur. Rétt eins og á við um Velolib-leiguhjólaþjónustuna er leiguverð rafbílanna byggt upp til að hvetja frekar til styttri ferða en langra.

Á 33 stöðvum

Og aðstandendur fyrirtækisins segja starfsemina alls ekki hugsaða til höfuðs hefðbundnum bílaleigum. „Við viljum reyna að fá fólk til að venja sig við þá hugsun að nota bíla í stað þess að þurfa eiga þá,“ segir Morald Chibout, framkvæmdastjóri Autolib. Rannsóknir hafa leitt í ljós að 25% franskra borgara hafa neyðst til að draga úr bílnotkun eða hætta henni alveg vegna ört hækkandi bíltrygginga og bílastæðisgjalda. Og rúmur helmingur Parísarbúa á ekki bíl.

Í fyrstu verða 66 fjögurra sæta Bluecar-bílar í notkun og hafa notendur aðgang að þeim á 33 stöðvum í borginni þar sem hægt er að endurhlaða rafgeymana að notkun lokinni. Áætlanir miða við það, að bílarnir verði orðnir 3.000 og leigustöðvarnar á annað þúsund fyrir lok næsta árs, 2012. Áætlað er að fjárfesting vegna þessa nemi 235 milljónum evra, jafnvirði 38 milljarða króna.

Frumkvöðull hlutskarpastur

Áður en til dæmis íslenskir ferðalangar geta notfært sér þessa bílaþjónustu verða notendur fyrst að kaupa sér áskrift að þjónustunni sem kostar frá 10 evrum á dag og upp í 144 evrur á ári.

Í útboði um bíla til þessarar þjónustu varð franski kaupsýslumaðurinn Vincent Bollore hlutskarpastur. Hann er frumkvöðull á sviði rafgeymasmíði en bílarnir eru hannaðir fyrir hann og framleiddir af ítalska fyrirtækinu Pininfarina. Drægi þeirra á fullri rafhleðslu er um 250 km og tekur um fjórar stundir að hlaða þá að fullu á ný. Bollore segist gera sér vonir um að Autolib skili hagnaði frá og með sjöunda starfsári.

agas@mbl.is