Yfir samræðum um sætu strákana í vinnunni og nýjustu augnskuggana frá Mac, hef ég opnað augu hennar fyrir snilld þess að borða Bingókúlur og Lays saltsnakk saman

Nú þegar haustar fer maður í auknum mæli að halla sér að hitabrúsanum, sem í mínu tilfelli er oftast fylltur earl gray- eða rauðrunnatei. Ávaxtate finnst mér nefnilega skelfilegt gutl og kaffi hef ég aldrei vanið mig á að drekka, þrátt fyrir ítrekaðar aðlögunartilraunir með kaffi-latte og swiss-mokka. Með ostakökunni á Frú Berglaugu, sem er efni í heilan pistil, nammi namm, fæ ég mér heitt kakó með rjóma og þar við situr, sama hvað vinkonurnar reyna að venja mig á betri og „fullorðinslegri“ siði.

Ein þessara yndislegu vinkvenna minna hefur sett sér það skemmtilega markmið í lífinu að gefast ekki jafn glatt upp við að kynna sér exótísk matarföng og segir þessa ákvörðun sína hafa breytt sínum dögum og bætt. Í upphafi segir hún bragðskyn sitt hafa svartlistað t.d. kaffi, rauðvín, bjór, ólívur, sushi og margt fleira sem ég man ekki eftir í skyndi. En hún þráaðist við; það er í fjölskyldunni; og lét sig hafa það að innbyrða þessa kosti engu að síður, þar til bragðlaukarnir voru farnir að taka heljarstökk við tilhugsunina um glas af El Coto, sem var lengi vel í miklu uppáhaldi.

Ekki hef ég sýnt þessari afstöðu mikinn skilning og finnst það eiginlega hálfgerð klikkun að neyða því í sig sem manni finnst vont, aftur og aftur, í von um að að lokum venjist það bara. En ég get varla kvartað, þessi þrautseiga vinkona mín á tvímælalaust þátt í því að ég kann að meta rauðvín í dag, sem mér datt einhvern veginn aldrei í hug að fá mér, og það var hún sem kynnti mig fyrir þeirri dásemd sem eru ansjósufylltar ólívur.

Og það hefur ekki staðið á mér að launa henni greiðann. Yfir samræðum um sætu strákana í vinnunni og nýjustu augnskuggana frá Mac, hef ég opnað augu hennar fyrir snilld þess að borða Bingókúlur og Lays saltsnakk saman, kennt henni að frysta Völu-bananastangir og froska þannig að brakar í þeim undir tönn og gefið henni uppáhaldið mitt úr barnæsku: niðurskorna ferska ávexti með Nóa Síríus suðusúkkulaðibitum og þeyttum rjóma. Ég hef sjaldan verið eins stolt eins og þegar ég stóð hana að því að borða Lucky Charms beint upp úr pakkanum!

Saltpillur og hreinan appelsínusafa saman vill hún hins vegar ekki sjá; það eru greinilega einhver takmörk fyrir því hvað hún leggur á magann á sér, þessi elska. Enda svo sem enginn annar félagsskapur en ég sem kemur til með að bjóða henni upp á téðar ansjósufylltar ólívur og sykurkók með, sem hún fúlsar einnig við.

Við höfum ólíkan matarsmekk, ég og vinkona mín, en eigum það sameiginlegt að njóta þess að elda og baka og borða. Við erum báðar af þeirri gerðinni að vera alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og erum sammála um að maður eigi alltaf að smakka, a.m.k. einu sinni.

Hólmfríður Gísladóttir