Fjöldi Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræðir við fjölmiðlamenn.
Fjöldi Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræðir við fjölmiðlamenn. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andri Karl andri@mbl.is Örðugt er að draga skýrar línur um það hvenær samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla er orðin slík að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að tryggja fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaðnum.

Fréttaskýring

Andri Karl

andri@mbl.is

Örðugt er að draga skýrar línur um það hvenær samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla er orðin slík að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að tryggja fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaðnum. Því þykir ekki heppilegt að lögbinda viðmið um t.d. hlutfall eignarhalds hvers eiganda og markaðshlutdeildar fjölmiðla undir sömu yfirráðum. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi sem nefnd um eignarhald á fjölmiðlum hefur kynnt mennta- og menningarmálanefnd. Engu að síður telur nefndin að þörf sé að taka upp í lög ákvæði sem miða að því að sporna við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum.

Að mati nefndarinnar á að auka heimildir samkeppnisyfirvalda til að grípa inn í óheppilega samþjöppun ef hún vinnur gegn fjölræði og fjölbreytni. Það yrði þá gert á grundvelli „matskenndra heimilda af samkeppnisréttarlegum toga“. Taka ber fram að með hugtakinu fjölræði er vísað til þess að fjölmiðlar séu ekki undir yfirráðum fárra aðila.

Viðmið eiga við 365 miðla

Í greinargerðinni með frumvarpinu eru tekin fram nokkur atriði sem taka ber mið af þegar metið er hvort eignarhald fjölmiðla er talið ógna fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Nefnd er hlutdeild á auglýsingamarkaði og áskrifendafjöldi áskriftarmiðla en það geti gefið vísbendingar um vinsældir fjölmiðilsins og fjárhagslegan styrk. Einnig segir að fjöldi og lengd efnisréttarsamninga á sjónvarpsefni, hvort sem eru bíómyndir, sjónvarpsþættir eða íþróttaefni, geti gefið ákveðnar vísbendingar. „[M]á nefna sem dæmi að örfá fyrirtæki eiga réttinn að vinsælustu bandarísku kvikmyndunum og sjónvarpsþáttunum á markaðnum.“

Einnig geti skipt máli hvort fjölmiðill reki eina eða fleiri fréttastofur og hver fréttastofa þá með sjálfstæða ritstjórn eða jafnvel ritstjórnarstefnu, en slíkt geti gefið vísbendingu um hvort fjölmiðillinn hafi skoðanamyndandi stöðu.

Fyrir nefndinni fór Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður. Spurður út í viðmiðin sem nefnd voru að ofan og hvort þau bendi ekki til að frumvarpið, verði það að lögum, komi til með að hafa áhrif á 365 miðla segir Karl: „Það er ekkert útilokað, en þetta er ekkert sérstaklega hannað þeim til höfuðs. En það er alveg ljóst að þeir eru gríðarlega stórir á ákveðnum fjölmiðlamörkuðum.“

Karl segir annars að erfitt sé að lesa út úr frumvarpinu áhrif á fjölmiðlamarkaðinn enda sé hann á fleygiferð og ekki vitað hvernig landslagið líti út þegar og ef frumvarpið verður að lögum í vetur. „En eins og verið hefur um árabil, og alþjóðlegar mælingar sýna, þá er mjög óheppileg samþjöppun á íslenskum fjölmiðlamarkaði og það er ástand sem hefur verið til margra ára.“

Fjölmiðlanefnd til umsagnar

Í greinargerðinni með frumvarpinu er lagt til að fjölmiðlamarkaður eða einstakir undirmarkaðir verði ekki skilgreindir í lögum enda geti skilgreiningar breyst frá einum tíma til annars. Samkeppniseftirlitið skal því skilgreina markaði í hverju tilviki fyrir sig.

En Samkeppniseftirlitið verður ekki einrátt þegar kemur að aðgerðum. Þar sem mat þess til að grípa til aðgerða byggist á fjölmiðlaréttarlegum sjónarmiðum er lagt til að aflað verði umsagnar fjölmiðlanefndar um nauðsyn aðgerða. „Með þessu er tryggð aðkoma þess stjórnvalds sem hefur ríkasta þekkingu á þeim fjölmiðlaréttarlegu sjónarmiðum sem mat að þessu leyti skal byggt á.“

Hið vandrataða einstigi

Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi þykir afar ótryggt, ekki síst um þessar mundir, og tekur Karl undir það. „Það er erfitt árferði og erfitt rekstrarumhverfi fjölmiðla, og því má heldur ekki ganga of hart gagnvart þeim,“ segir hann. Þessu má einnig finna stað í greinargerðinni með frumvarpinu því þar segir að þannig verði „að feta hið vandrataða einstigi milli þess að tryggja fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum annars vegar og hins vegar þess að fjárfestar, einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í því að fjárfesta á fjölmiðlamarkaði.“

Segir svo að sé ekki að þessu gætt geti takmarkanir á fjölmiðlamarkaðnum snúist upp í andhverfu sína og unnið gegn því markmiði að almenningur eigi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum.

Nefndin hélt átta fundi og fékk til sín fulltrúa ýmissa hagsmunaaðila, sem og sérfræðinga í samkeppnisrétti. Samhljómur var með nefndarmönnum sem standa allir að tillögunum. Þó skilaði einn nefndarmanna bókun þar sem hann vildi ganga lengra en lagt er til í frumvarpinu.

TELST VARLA RÓTTÆKT

Brýnast að ræða RÚV

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir erfitt að lesa út úr frumvarpi nefndar um eignarhald á fjölmiðlum hvaða áhrif það hafi í för með sér, verði það að lögum, enda séu línurnar frekar óskýrar í því. „Það ræðst voðalega mikið af því hvaða tökum þessi mál verða tekin. Við eigum eftir að fara betur yfir þetta, en mér sýnist í fyrstu að tillögurnar teljist varla róttækar og feli ekki í sér neina u-beygju í áherslum stjórnvalda gagnvart þessari atvinnugrein. Hún markast reyndar mikið í heild af óeðlilegri þátttöku ríkisins á markaðnum. Ekki síst út frá samkeppnisréttarlegum sjónarhóli. Það er krabbameinið á þessum fjölmiðlamarkaði og brýnast að ræða.“

Hvað varðar samþjöppun eignarhalds segist Ari ekki telja ástandið verra hér en annars staðar. „Flestir af þessum einkareknu fjölmiðlum sem við þekkjum í öðrum löndum eru í mjög þröngu eignarhaldi, að minnsta kosti yfirráðin. Ég held að sjálfstæði og vinnubrögð fjölmiðla og einstakra fréttastofa skipti mestu um þá stöðu sem þær hafa í samfélaginu.“