Svipbrigði Þorgrímur Smári Ólafsson brýst framhjá Matthíasi Árna Ingimarssyni og Stefáni Rafni Sigurmannssyni.
Svipbrigði Þorgrímur Smári Ólafsson brýst framhjá Matthíasi Árna Ingimarssyni og Stefáni Rafni Sigurmannssyni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Seltjarnarnesi Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Eftir jafnræði fyrstu mínúturnar skildu leiðir í stöðunni 8:8 þegar Grótta fékk Hauka í heimsókn í N1-deildinni í handknattleik.

Á Seltjarnarnesi

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Eftir jafnræði fyrstu mínúturnar skildu leiðir í stöðunni 8:8 þegar Grótta fékk Hauka í heimsókn í N1-deildinni í handknattleik. Haukar tóku öll völd á vellinum í kjölfarið og unnu sannfærandi tíu marka sigur 24:34. Leikur Gróttu hrundi um miðbik fyrri hálfleiks og að sama skapi spiluðu Haukarnir á þeim tíma mjög þétta vörn. Auðveld skot enduðu annaðhvort á vörninni eða Birki Ívari Guðmundssyni sem stóð vaktina með stakri prýði og varði 20 skot. Hann er að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Einnig átti Þórður Rafn Guðmundsson góða innkomu en hann hefur þurft að glíma við meiðsli á undirbúningstímabilinu.

„Þeir eru að berjast fyrir lífi sínu og eru með sterkan heimavöll. Það var því vitað að þetta yrði erfitt til að byrja með. Ef við hefðum ekki mætt klárir hugarfarslega hefði þetta getað verið mjög erfitt,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka.

Hann sagðist jafnframt vera ánægður með sóknarleik liðsins. Þá hældi hann Þórði Rafni. „Hann var lengi frá í undirbúningnum og var með í síðasta leik en hann hefur verið að reyna að komast í eitthvert form. Það var því gaman að sjá hvað hann kom sterkur inn í dag.“

Ljósi punkturinn er markvarslan

Það er ljóst að Grótta á erfitt verk fyrir höndum í vetur ef mið er tekið af þessum leik og gegn HK í annarri umferð. Liðið vantar fleiri afgerandi sóknarmenn sem þora að taka af skarið. Einbeitingin var ekki góð í þessum leik og um leið og Haukarnir náðu forskoti var djúpt á sjálfstraustinu, ef til vill eðlilega. Ljósi punkturinn er markvarslan sem er þó enn of kaflaskipt.

*Myndbandsviðtöl við Aron, Gylfa Gylfason, markahæsta mann Hauka í leiknum, og Árna Benedikt Árnason er að finna á mbl.is/sport.

Grótta – Haukar 24:34

Íþróttahúsið á Seltjarnarnesi, úrvalsdeild karla, N1-deildin, fimmtudaginn 6. október 2011.

Gangur leiksins : 0:1, 1:1, 5:5, 5:7, 8:8, 8:12, 9:16, 11:19 , 12:20, 15:22, 19:26, 21:28, 22:30, 24:34 .

Mörk Gróttu : Jóhann Gísli Jóhannesson 8/1, Friðgeir Elí Jónasson 4, Ágúst Birgisson 3, Árni Benedikt Árnason 3, Benedikt Reynir Kristinsson, 2, Þorgrímur Smári Ólafsson 2/1, Aron Valur Jóhannsson 2.

Varin skot : Lárus Helgi Ólafsson 9, Magnús Sigmundsson 6/1.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Hauka : Gylfi Gylfason 8/3, Þórður Rafn Guðmundsson 6, Einar Pétur Pétursson 6, Tjörvi Þorgeirsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Heimir Óli Heimisson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Sveinn Þorgeirsson 1, Freyr Brynjarsson 1, Sigurður Guðjónsson 1.

Varin skot : Birkir Í. Guðmundsson 20.

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Hafsteinn Ingibergsson og Gísli Jóhannsson, þokkalegir.

Áhorfendur : 319.