[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórey Rósa Stefánsdóttir , landsliðskona í handknattleik, skoraði eitt mark þegar lið hennar, Team Tvis Holstebro, lagði Randers, 31:27, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Rut Jónsdóttir lék ekki með Holstebro vegna meiðsla.
Þ órey Rósa Stefánsdóttir , landsliðskona í handknattleik, skoraði eitt mark þegar lið hennar, Team Tvis Holstebro, lagði Randers, 31:27, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Rut Jónsdóttir lék ekki með Holstebro vegna meiðsla. Þetta var fyrsta tap Randers í deildinni. Holstebro situr í þriðja sæti deildarinnar með níu stig að loknum sex leikjum, er einu stigi á eftir Randers sem er í öðru sæti. Viborg er með fullt hús stiga eftir sex umferðir.

Harpa Sif Eyjólfsdóttir skoraði einnig eitt mark þegar Spårvägens HF vann Skövde, 26:25, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Spårvägens HF er ásamt tveimur öðrum liðum í efsta sæti deildarinnar með sex stig að loknum fjórum umferðum.

Greint var frá því á sport.is í gær að Ragnar Snær Njálsson ætlaði að ganga til liðs við Akureyri handboltafélag þegar opnað verður fyrir félagaskipti í byrjun janúar. Ragnar Snær hefur verið á mála hjá Bad Neustadt í þýsku 3. deildinni síðasta hálft annað ár eftir að hafa verið áður í Grikklandi einn vetur. Ragnar Snær hefur glímt við meiðsli og er ekki að sjá nú á núverandi leikmannalista Bad Neustadt.

Rússneski sóknarmaðurinn Roman Pavlyuchenko segir að það sé fátt annað í stöðunni hjá sér en að yfirgefa enska úrvalsdeildarliðið Tottenham Hotspur í janúar. Pavlyuchenko á enn erfitt uppdráttar hjá Lundúnaliðinu en hann hefur verið þar í þrjú ár eftir að félagið keypti hann af Spartak Moskva. Sala Tottenham á Peter Crouch til Stoke í ágúst hefur ekki liðkað mikið til fyrir Rússanum. Hann hefur leikið 74 leiki með Tottenham í úrvalsdeildinni á þessum þremur árum og skorað 20 mörk.

Bruce Buck , stjórnarformaður Chelsea, kveðst öfunda Manchester United og Arsenal af knattspyrnustjórunum Alex Ferguson og Arsene Wenger og vonast eftir því að Portúgalinn André Villas-Boas verði við stjórnvölinn hjá félaginu næstu 10-15 árin. Frá því José Mourinho var rekinn í september 2007 hafa fimm knattspyrnustjórar stýrt Chelsea, sem hefur ekki tekist að ná því setta marki að vinna Meistaradeild Evrópu. Ferguson hefur verið hjá Manchester United frá 1986 og Wenger hjá Arsenal frá 1996.