Audi Þýski eðaljeppinn hefur vakið verðskuldaða athygli. Áætlanir eru um að næstu kynslóðir bíla þessara gerðar verði að mestu úr áli, magnessíum og plastblöndum en þannig má létta bílinn og spara eldsneyti.
Audi Þýski eðaljeppinn hefur vakið verðskuldaða athygli. Áætlanir eru um að næstu kynslóðir bíla þessara gerðar verði að mestu úr áli, magnessíum og plastblöndum en þannig má létta bílinn og spara eldsneyti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breytt menning í bílaframleiðslu í heiminum. Eyðslugrennri og minna mengandi bílar. Minni eyðsla bensínvéla hefur reyndar haldist í hendur við dísilvélarnar og með ólíkindum hvaða árangri framleiðendur hafa náð, segir Finnur Orri Thorlacius.

Ef einhver áberandi stefnubreyting hefur orðið hjá bílaframleiðendum síðustu ár hlýtur það að teljast tilhneiging þeirra til að minnka vélar í bílum sínum án aflminnkunar og að létta þá án þess að pláss minnki. Bæði þessi atriði ber reyndar að sama brunni, það er að uppfylla síauknar kröfur og reglugerðir yfirvalda um eyðslugrennri og minna mengandi bíla. Þar á hækkandi verð á eldsneyti mikinn þátt og krafa neytenda rímar við kröfur yfirvalda.

Sameiginlega hafa lönd Evrópu gert kröfur á bílaframleiðendur og sett fram markmið sem þeir allir þurfa að ná við lækkun eyðslu og útblástur mengandi efna. Síðasti kvarði sem settur var á og allir bílaframleiðendur keppast við að hlíta nú er EURO5 staðallinn og næstu staðlar munu enn þrengja að framleiðendum og krefjast þess að þeir geri enn betur á þessu sviði. Sumir hafa reyndar bent á að of langt verði gengið í kröfunum en ekki verður litið framhjá árangrinum sem náðst hefur með ströngum kröfum hingað til.

Líka í Bandaríkjunum

Meira að segja í Bandaríkjunum eru fjögurra sílindra vélar orðnar algengastar, en bara fyrir 5 árum voru 6 sílindra vélar í því sæti. Uppáhald Ameríku í marga áratugi, 8 sílindra vélin, er á svo miklu undanhaldi að nú eru færri en 17% seldra bíla þar með svo stóra vél. Stutt er í að sú tala fari undir 10%. Þessi afgerandi breyting hefur t.d. orðið til þess að eftirspurn eftir bensíni í Bandaríkjunum minnkaði talsvert í síðasta mánuði í samanburði við sama mánuð í fyrra. Staðreyndin er sú að bílarnir eyða minna, bílunum er ekki að fækka eða fólk að aka minna. Sama er á hvaða bílaframleiðanda er litið, hver einasti þeirra er að minnka vélar í bíla sína. Það hefur þó ekki orðið til þess að minnka afl þeirra.

Gott dæmi er ofurbíll BMW, M5 sportbíllinn. Hann hefur undanfarin ár verið knúinn 10 sílindra vél sem skilar 500 hestöflum en mun í næstu útgáfu fá 8 sílindra vél sem skilar 560 hestöflum. Mest munar þar um tilkomu tveggja túrbína ofan á vélina. Þar kveður við sama tón og hjá mörgum öðrum framleiðendum, margir þeirra hafa einmitt gripið til þess ráðs að setja rafala í snarminnkaðar vélar og fá sama eða meira afl út úr þeim fyrir vikið. Bílarnir léttast mikið og eyðslan snarminnkar.

Ótrúleg þróun véla

Mikil þróun hefur átt sér stað í smíði véla og sú staðreynd að dísilvélar eyða almennt minna en bensínvélar hefur orðið til þess að augu framleiðenda hafa enn meira beinst að þróun eyðslugrannra dísilvéla og á markaðinn nú eru að koma bílar sem eyða rétt rúmum þremur dísilolíulítrum á hundrað kílómetrum, t.d. nýr Kia Rio. Þetta eru tölur sem flestum hefði þótt óhugsandi bara fyrir 5 árum. Einnig koma nú fram á markaðinn stórir fólksbílar, hálfgerðar límósínur, sem eyða ekki nema 5 lítrum á hundraðið.

Greinarhöfundur ók nýlega stórum Benz bíl út fyrir bæinn og í túrnum var eyðslan milli 5 og 6 lítrar þó alls enginn sparakstur hafi verið stundaður. Dísilknúnum bílum hefur fjölgað mjög á kostnað bensínknúinna og meira að segja í bensínlandinu Bandaríkjunum eru augu framleiðenda og kaupenda að opnast fyrir kostum dísilvéla og þeim fer snarfjölgandi þar einnig, ekki bara í flokki pallbíla, heldur allt niður í smábíla.

Með ólíkindum

Minni eyðsla bensínvéla hefur reyndar haldist í hendur við dísilvélarnar og með ólíkindum hvaða árangri framleiðendur hafa náð á allra síðustu árum. Viðnám inni í þeim er alltaf að minnka og nýtni á afli eldsneytisins að aukast. Ný tækni við háþrýsta innsprautun eldsneytis hefur einnig hjálpað, betri ventlatækni, meiri þrýstingur á loftinntaki og fjölmörg önnur vel útfærð tækniatriði hafa skilað feikilegum árangri.

Ein vinsæl aðferðin við að minnka eyðslu bíla undanfarin ár er tvinntæknin, en þar nýtir bíllinn þá orku sem hann þegar hefur skapað og hleður rafmagni inná rafhlöðu við bremsun og niður brekkur og nýtir síðan þá orku þegar á þarf að halda.

Sífellt léttari

Varla kemur nú fram í dagsljósið bíll svo að hann sé ekki talsvert léttari en forveri hans. Tölur um allt að 300 kg léttari bíla milli ára sjást og t.d. mun næsta árgerð Audi Q7 léttast um einmitt þá tölu. Notkun léttari efna á stærstan þátt í þessum árangri og í tilviki Audi er stærstu skýringarinnar að leita í útskiptum stáls fyrir ál og er búist við að eftirspurn eftir áli muni vaxa gríðarlega á næstu árum bara vegna bíliðnaðarins. Ál er þrisvar sinnum léttara en stál, það ryðgar ekki og það má endurvinna að fullu og nýtist því aftur og aftur.

Einnig hefur aukin notkun koltrefja spilað rullu í að létta bíla en í leiðinni auka styrk þeirra. Hugkvæmni í hönnun og grandskoðun hvers íhlutar á einnig sinn þátt í að létta þá. Evrópa og Japan hafa rutt brautina í þessum efnum og Bandarískir framleiðendur dregið lappirnar þar til á allra síðustu árum. Þar á undan höfðu bílar framleiddir í Ameríku haft tilhneigingu til að stækka og stækka og þyngjast fyrir vikið, enda eldsneytið ódýrt þar til á allra síðustu árum. Plast spilar einnig stærri og stærri hlutverk í ytra byrði bíla og líklegt að ýmsar plastblöndur með mikinn styrk verði notaðar í meira mæli. Blokkir í vélar bíla hafa verið framleiddar úr plastblöndum sem eru sterkari en stálblokkir og vega mun minna. Að miklu er að keppa, þar sem blokkin er gjarnan þyngsti eini íhlutur hvers bíls.

Verður 30% léttari

Enn er talsvert rými til að létta bíla frekar og þróun næstu ára verður mjög í þá átt. Kæmi ekki á óvart að bílar almennt yrðu 30% léttari en nú innan 5 ár. Audi hefur fullyrt að næsta kynslóð S5 bíls fyrirtækisins muni verða 30% léttari en núverandi bíll, sem vegur 1.723 kg. Næsta kynslóð verður 1.207 kg og sá bíll hefur þegar verið framleiddur sem prufueintak og verið er að prófa hann og þróa enn frekar. Hann er mest byggður á áli, magnesíum og plastblöndum og kemur á markað árið 2014. Vonandi eru allir bílaframleiðendur með svipuð plön.

finnurorri@gmail.com