Vörubíll Nýr Mercedes-Benz Actros er komin úr verksmiðju. Askja afhendir fyrstu bílana snemma á næsta ári.
Vörubíll Nýr Mercedes-Benz Actros er komin úr verksmiðju. Askja afhendir fyrstu bílana snemma á næsta ári.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benz boðar sókn með nýjum flutningavagni. Nýr Actros var prófaður á Pólnum og í ofurhita eyðimerkur. Nýtir orkuna vel. Áreiðanlegur búnaður og sparneytni á þátt í aukinni markaðshlutdeild.

Mercedes-Benz Actros sem nýlega kom á markað er fyrsti flutningabíllinn sem er hannaður að öllu leyti út frá Euro VI viðmiðum um umhverfisvernd. Þessu til viðbótar lagði Mercedes-Benz meira en einn milljarð til fjárfestinga í verksmiðjum og tækjum til framleiðslu flutningabílsins.

Viðamiklar prófanir

Nýr Actros fór í viðameiri prófanir en þekkst hafa til þessa. Alls var gerðinni ekið í yfir 20 milljónir km. þar af í yfir 40 gráða hita í Sierra Nevada eyðimörkinni og 40 gráða frosti við heimskautsbaug.

Opnað var fyrir pantanir á þessum nýja flutningabíl í júlí sl í Mið-Evrópu. Helsti keppinautur nýja bílsins er reyndar fyrri gerð hans, Actros MP3, sem hefur selst í yfir 700 þúsundum eintaka frá markaðssetningu hans og er því mest seldi vörubíllinn í sínum stærðarflokki í Evrópu.

„Nýr Actros eyðir frá 4-7% minna af dísilolíu en núverandi gerð, Actros MP3. Hann er því orkunýtnasti dísilknúni langflutningabíllinn í Evrópu í Euro VI flokknum,“ segir Páll Halldór Halldórsson, sölustjóri atvinnubíla hjá Öskju, sem er umboðsfyrirtæki Mercedes-Benz á Íslandi.

Aukin hlutdeild

„Þetta má þakka nýrri aflrás sem styðst við nýjustu vélartækni, þar á meðal X-Pulse innsprautunarkerfið, hringrás fyrir afgasið, sérstakri meðhöndlun á afgasi með Blue Tec dísiltækninni og lokaðri sótagnasíu. Þessi búnaður hefur verið árangursprófaður af viðskiptavinum í Bandaríkjunum og Japan í yfir 70.000 ökutækjum. Áreiðanleiki búnaðarins og sparneytni hefur átt sinn þátt í að stórauka markaðshlutdeild Mercedes-Benz í þessum löndum.“

Að sögn Páls Halldórs má búast við að Askja geti afhent viðskiptavinum sínum nýjan Actros á fyrstu mánuðum næsta árs.

sbs@mbl.is