Stálstýri Volkswagen Passat Metan var á dögunum valinn bíll ársins og fengu Heklumenn verðlaunagripinn Stálstýrið. Bíllinn hefur fengið afar góðar viðtöku á markaði hérlendis. Marinó Björnsson hefur því sannarlega ástæðu til að vera ánægður.
Stálstýri Volkswagen Passat Metan var á dögunum valinn bíll ársins og fengu Heklumenn verðlaunagripinn Stálstýrið. Bíllinn hefur fengið afar góðar viðtöku á markaði hérlendis. Marinó Björnsson hefur því sannarlega ástæðu til að vera ánægður. — Morgunblaðið/Kristinn
Volkswagen Passat Metan völdu blaðamenn á dögunum bíl ársins á Íslandi. Rúmgóður og þægilegur. Bílar frá Heklu reyndust mjög sigursælir í valinu. Kemur ekki á óvart, segir Marinó Björnsson sölustjóri.

Okkur hefur gengið vel með þennan bíl alveg frá því hann kom á markað í byrjun líðandi árs. Að fá útnefningu sem bíll ársins gaf okkur svo byr í seglin,“ segir Marinó Björnsson, sölustjóri Heklu hf. Bandalag íslenskra bílablaðamanna valdi Volkswagen Passat Metan á dögunum sem bíl ársins; það er bestan allra þeirra bíla sem dómur var lagður á. Einnig voru veitt verðlaun fyrir efsta bíl í hverjum flokki. Í flokki smærri fólksbíla bar sigur úr býtum Audi A1. Í flokki stærri fólksbíla var sigurvegarinn Volvo S60 og í flokki vistvænna bíla Volkswagen Passat Metan sem jafnframt varð hlutskarpastur þeirra allra. Stjórnendur Heklu sem hafa umboð bæði fyrir Volkswagen og Audi mega því vel við una.

Þegar kreppan svarf að haustið 2008 ákváðu bílablaðamenn að setja val á bíl ársins á ís. Með vaxandi sölu bíla þótti hins vegar ástæða til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.

105 seldir

Alls hafa 105 bílar af Volkswagen Passat Metan selst á árinu.

Passat Metan er að sögn blaðamanna rúmgóður bíll, þægilegur í notkun, vel búinn og veitir fólki sem í honum er mikla vernd ef slys hendir. Þetta er verksmiðjuframleiddur metanbíll sem ekki er breytt eftir á. Er drifinn áfram af innlendum orkugjafa og með hámarksöryggi. Er góður í akstri og með aflmikla sparneytna vél.

Sjötta kynslóð í sölu

„Volkswagen Passat hefur fengið góða dóma alveg frá því bíllinn kom fyrst á markað fyrir bráðum fjörutíu árum. Sjöunda kynslóðin sem nú er í sölu er glæsilegur bíll með tilliti til hönnunar, aksturseiginleika, sparneytni og öryggis. Þessi viðurkenning þarf því ekki að koma á óvart,“ segir Marinó Björnsson um Volkswagen Passat EcoFuel sem notar metangas sem aðalorkugjafa en einnig er hann með 31 lítra bensíntak. Hámarksdrægni á metangasi er um 450 km og 430 km á bensíninu. Þannig er hægt að aka 880 km að hámarki án þess að taka eldsneyti.

sbs@mbl.is