Fjárlagafrumvarpið þarf gagngera endurskoðun á Alþingi

Forsendur fjárlagafrumvarpsins voru brostnar áður en það var lagt fram. Frumvarpið byggist ekki á nýjustu spá um hagvöxt, einkaneyslu og verðbólgu og munar töluverðu á nýjustu spá og þeirri sem fjármálaráðherra gengur út frá.

Þegar af þessari ástæðu er ljóst að sú niðurstaða fjárlaganna sem forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa kynnt er ekki á réttum rökum reist. Þar með er óhjákvæmilegt að verulegar breytingar þurfi að gera á frumvarpinu í meðförum þingsins, enda eru hinar röngu forsendur allar í eina átt, þ.e. til fegrunar niðurstöðunnar.

Á þetta er meðal annars bent í minnisblaði Alþýðusambands Íslands um fjárlagafrumvarpið og ljóst er að þar á bæ hafa menn áhyggjur af að frumvarpið standist ekki. Þær áhyggjur eru skiljanlegar og eðlilegar. Hitt er óskiljanlegt og ekki minna áhyggjuefni, að forystumenn ríkisstjórnarinnar telji þvert á móti að forsendurnar séu varfærnislegar og að hallinn sé þar með ofmetinn.