Margir kvarta stöðugt vegna dagskrár ríkissjónvarpsins. Þetta finnst Víkverja vera með ólíkindum og vill frekar sjá fólk brosa ánægt framan í heiminn en vera með fýlusvip. Hver hefði til dæmis vilja missa af stefnuræðu forsætisráðherra sl....

Margir kvarta stöðugt vegna dagskrár ríkissjónvarpsins. Þetta finnst Víkverja vera með ólíkindum og vill frekar sjá fólk brosa ánægt framan í heiminn en vera með fýlusvip.

Hver hefði til dæmis vilja missa af stefnuræðu forsætisráðherra sl. mánudagskvöld? Þökk sé Sjónvarpinu að forsætisráðherra gat komið efasemdum sínum um stjórnina á framfæri. „Byggjum við upp traust á stjórnmálunum og okkur sjálfum með framgöngu okkar?“ spurði hún eftir að hafa vakið athygli á því að traust til Alþingis hefði aldrei verið minna og það yrði ekki einvörðungu skýrt með vísan til bankahrunsins fyrir þremur árum. „Vinnum við í þágu heildarinnar þegar til lengdar er litið?“ hélt forsætisráðherra áfram, fyrir þá sem misstu af beinu útsendingunni. „Erum við góðar fyrirmyndir því unga fólki sem veltir fyrir sér virkri þátttöku í stjórnmálastarfi? Því verður hver að svara fyrir sig.“

Innanríkisráðherra, sem valdi að vera á ráðstefnu í Mexíkó frekar en við þingsetningu, svaraði þessu reyndar í þættinum Í bítið á Bylgjunni morguninn eftir á milli þess sem lesnar voru upp bingótölur dagsins: „Ég hef nú ekki misst af neinu og held að enginn hafi misst af mér.“

Svo haldið sé áfram að hæla Sjónvarpinu þá má dagskrárstjóri þess eiga það að þar á bæ er hlustað þegar eldri þegnar þessa lands leggja orð í belg. Ekki er ofsagt að allt varð hreinlega vitlaust, þegar hætt var að sýna Leiðarljós, en eftir að sýningar hófust daglega á ný hafa þessar raddir þagnað, þó að aldur og veikindi geti vissulega átt hlut að máli. Nú heyrir Víkverji að margir séu komnir fram á brúnina vegna þáttarins Kexverksmiðjunnar og ekkert geti komið þessu fólki til bjargar nema sýningum verði hætt og Hringekjan sýnd í staðinn. Leikmyndin sé enn til hjá Rúv og því ekkert til fyrirstöðu. Heill og hamingja áhorfenda Sjónvarpsins er sögð í veði. Boltinn er í Efstaleiti.