Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
Núverandi ríkisstjórn setti niður hóp sem hún hafði bæði traust og velþóknun á til að fara með yfirstjórn bankasýslunnar í sínu umboði.

Núverandi ríkisstjórn setti niður hóp sem hún hafði bæði traust og velþóknun á til að fara með yfirstjórn bankasýslunnar í sínu umboði.

Framkvæmdastjórinn, sem gegnt hafði sínu starfi frá upphafi þess, kvaddi nokkuð óvænt og mátti ráða að eitthvað hefði skort á ánægju framkvæmdastjórans með ráðuneytið sem starfsemin fellur undir.

Hvað sem því líður þá varð að leita eftir nýjum framkvæmdastjóra. Stjórnin gerði það og tilkynnti sína niðurstöðu. Þá varð uppi fótur og fit.

Á daginn kom að sá sem ráðinn var til starfans var ekki samfylkingarmaður. Það sem verra var að nákvæm skoðun sýndi að hann tengdist Framsóknarflokknum. Málið var að sjálfsögðu tekið upp á þinginu af hinum sómakæra þingmanni Helga Hjörvar, og fór vel á því. Hann hefur litríka reynslu úr viðskiptalífinu, af fleiri stöðum en einum. Hafðar voru uppi hótanir í þingsal um að sæi ekki framkvæmdavaldið að sér myndi þingið „að sjálfsögðu“ grípa í taumana.

Stjórnarformaðurinn fullyrðir að framkvæmdastjórinn hafi verið ráðinn með samhljóða atkvæðum eftir „faglegt“ ráðningarferli. Hinn nýráðni hefur gott orð, þykir hæfur og vandaður maður með víðtæka reynslu. Hann mun starfa undir umsjá og eftirliti stjórnar og hún og hann undir vökulu auga fjármálaráðuneytis.

En það breytir ekki því að maðurinn er ekki samfylkingarmaður.