Dekkakarlar Ómar Guðmundsson hjá Pitstop og August Håkansson hjá Icetrack eru ánægðir með nýju dekkin sem duga vel á jeppum í fjallaferðum upp til heiða og dala.
Dekkakarlar Ómar Guðmundsson hjá Pitstop og August Håkansson hjá Icetrack eru ánægðir með nýju dekkin sem duga vel á jeppum í fjallaferðum upp til heiða og dala. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Eigendur Icetrack ehf. gengu nýlega frá samningum við hjólbarðaþjónustuna Pitstop um að annast smásölu á amerískum Mickey Thompson-jeppadekkjum sem fyrrnefnda fyrirtækið flytur inn.

Dekkin frá Mickey Thompson fást í stærðum frá 29 til 54 tommur og eru vel þekkt meðal þeirra sem eru t.d. á stórum og mikið breyttum bílum. Dekkin fást þó einnig í flestum stærðum fyrir venjulega jeppa og eru þar góður kostur sem heilsárs- og vetrardekk.

Reynst vel á jöklum

„Mynstur dekkjanna veitir gott grip og jafnvægi, þau eru sérlega endingargóð og duga vel í akstri við erfiðar aðstæður. Vestur í Bandaríkjunum er þau vinsæl meðal jeppamanna sem eru í torfæruakstri sem þekkist ekki með sambærilegum hætti hérlendis. Á Íslandi eru jökla- og hálendisferðir allsráðandi og þar hafa dekk þessarar gerðar reynst afar vel,“ segir August Håkansson hjá Icetrack sem bætur við að dekkin henta vel til míkróskurðar og lítið mál er að negla þau fyrir akstur utanbæjar og á fjallvegum.

„Dekk sem eru 29-33 tommur eru algengust á lítt breyttum eða óbreyttum borgarjeppum en þau stærstu fara á breytta fjallabíla,“ segir August sem væntir mikils af samstarfinu við Pitstop sem rekur hjólbarðaþjónustu í Rauðhellu 11 og Hjallahrauni 4 í Hafnarfirði auk þjónustustöðvar í Dugguvogi 10 í Reykjavík.

„Núna erum við að kynna nýja línu í þessum dekkjum, STZ-línuna sem er beint að jepplingum og lítið breyttum jeppum. Ég gef þessum dekkjum mína allra bestu einkunn. Veghljóðið er sáralítið og mynstrið er opið og hreinsar sig vel. Hafa í raun alla þá eiginleika sem mikilvægt er að dekk hafi svo þau dugi við okkar aðstæður,“ segir Ágúst sem bætir við að áfram verða í boði ATZ- og MTZ-mynstrin sem hafa reynst afar vel. Nýtt grófmunstrað dekk, Baja Claw TTC verður svo kynnt á næstunni.

Spennandi viðbót

„Okkur þykir mjög spennandi að bæta Mickey Thompson-jeppadekkjunum við vörulínu okkar,“ segir Ómar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Pitstop. „Þessi dekk eru íslenskum jeppamönnum að góðu kunn og eru þekkt fyrir gæði og góða aksturseiginleika. Allar þjónustustöðvar Pitstop bjóða upp á þjónustu við jeppaeigendur og starfsmenn okkar hafa gríðarlega reynslu á þessu sviði. Það er mikilvægt fyrir marga jeppaeigendur að fyrir utan að vera góð dekk til aksturs er útlitshönnun Mickey Thompson-dekkjanna til þess fallin að gera fallegan jeppa enn flottari og svipmeiri.“

sbs@mbl.is