Ylur Bílahitarar eru sniðug tæki og koma sér vel á veturna. Ísleifur Erlingsson heldur á tækinu sem fæst í nokkrum gerðum.
Ylur Bílahitarar eru sniðug tæki og koma sér vel á veturna. Ísleifur Erlingsson heldur á tækinu sem fæst í nokkrum gerðum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S
Bílahitarar spara eldsneyti og koma í veg fyrir slit véla. Stilling flytur inn tvær gerðir af þessum tækjum sem eru sannkallað þarfaþing.

Hitatölur á Íslandskortinu í veðurfréttatímum sjónvarpsstöðvanna verða senn bláar, enda október runninn upp og allra veðra von á landinu bláa. Starfsfólk bensínstöðvanna er þegar búið að taka fram rúðusköfurnar og dekkjaverkstæði undirbúa komandi vertíð í dekkjaskiptum.

Ansi sniðug tæki

Stilling selur bílahitara, sem geta verið hentug tæki fyrir þá sem vilja losna við að skafa rúðurnar á köldum vetrarmorgnum, auk þess sem notalegt er að setjast inn í hlýjan bílinn. Og ekki skemmir fyrir að vélin er heit og tilbúinn í vetraraksturinn.

„Já, þetta eru ansi sniðug og hentug tæki. Við erum með tvenns konar vélahitara, sá einfaldari er frá sænska fyrirtækinu Calix. Tækinu er einfaldlega stungið í samband við heimilisrafmagn og hitarinn sér svo um að halda bílnum heitum og fínum,“ segir Ísleifur Erlingsson hjá Stillingu hf.

„Slíkir hitarar koma í veg fyrir óþarfa slit á vélinni og draga líka verulega úr eldsneytiseyðslu þegar kalt er í veðri. Þægindin við að þurfa ekki að skafa rúðurnar eru líka mikil og svo sest fólk upp í bílinn sinn heitan, sem auðvitað er mikill plús. Hitararnir frá Calix kosta á bilinu 30 til 50 þúsund krónur og það er tiltölulega einfalt að koma þeim fyrir í bílnum,“ segir Ísleifur.

Borgar sig á fjórum árum

Hin tegund bílahitara sem Stilling er með umboð fyrir er frá þýska fyrirtækinu Eberspächer, sem er leiðandi á þessu sviði. Hitararnir frá þessu fyrirtæki eru mjög fullkomnir og góðir og kosta 190 þúsund krónur. Hitarinn, sem er fyrirferðalítill, samanstendur af brunahólfi, loftmótor, vatnsdælu, tölvustýrikerfi, slöngum og olíudælu.

„Það tekur nokkra tíma fyrir fagmann að koma hitaranum fyrir í bílnum, en hann er jafnframt hægt að fjarlægja ef til dæmis eigandinn skiptir um bíl. Miðað við verð á eldsneyti í dag er ekki ólíklegt að þessi búnaður borgi sig upp á þremur til fjórum árum. Eldsneytiseyðslan er mikil þegar vélin er ísköld, auk þess sem slíkur búnaður kemur í veg fyrir slit á vélum og öðrum búnaði. Algengast er að hitarar séu settir strax í nýja bíla, enda í mörgum tilvikum hægt að fá þá sem staðalbúnað, til dæmis í Benz. Alltaf er þó töluvert um að fólk komi og kaupi slíkt tæki til að setja í eldri bíla,“ segir Ísleifur Erlingsson hjá Stillingu.

karlesp@simnet.is